Viðskipti innlent

Verð­bólga eykst veru­lega

Árni Sæberg skrifar
Föt og skór hækkuðu á milli mánaða, meðal annars vegna þess að tilboðsdögum lauk.
Föt og skór hækkuðu á milli mánaða, meðal annars vegna þess að tilboðsdögum lauk. Vísir/Vilhelm

Verðbólga mælist nú 4,5 prósent, miðað við 3,7 prósent í nóvember. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í desember 2025, er 665,8 stig og hækkar um 1,15 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 531,0 stig og hækkar um 1,45 prósent frá nóvember 2025. Greiningardeildir Landsbankans og Arion banka höfðu spáð 3,9 prósenta verðbólgu.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að flestum tilboðsdögum sé nú lokið og því hafi orðið hækkun í ýmsum flokkum sem lækkuðu í nóvember, meðal annars fötum og skóm, sem hafi hækkað um 3,6 prósent og hafi 0,13 prósenta áhrif á vísitöluna til hækkunar. Hitaveita hafi hækkað um 9,2 prósent, 0,18 prósenta áhrif, og flugfargjöld til útlanda um 28,8 prósent, 0,53 prósenta áhrif.

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 4,5 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,8 prósent.

Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs árið 2025 hafi verið 653,1 stig, 4,1 prósenti hærra en meðalvísitala ársins 2024. Samsvarandi breyting hafi verið 5,9 prósent árið 2024 og 8,8 prósent 2023.

Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs án húsnæðis árið 2025 hafi verið 523,1 stig, þremur prósentum hærra en meðalvísitala ársins 2024. Samsvarandi breyting hafi 3,8 prósent árið 2024 og 7,8 prósent 2023.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×