Enski boltinn

„Allir virðast elska hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice fagnar sigri Arsenal á Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Declan Rice fagnar sigri Arsenal á Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Getty/Richard Sellers

Wayne Rooney, fyrrverandi stjörnuframherji enska landsliðsins, hefur mikið álit á Declan Rice hjá Arsenal og sér hann fyrir sér í mikilvægu hlutverki hjá enska landsliðinu í framtíðinni.

Rooney sér Rice fyrir sér sem framtíðarfyrirliða enska landsliðsins.

Rooney, sem var sjálfur fyrirliði Englands í þrjú ár frá 2014 til 2017, var á Hill Dickinson-leikvanginum til að sjá lið Mikel Arteta tryggja sér nauman 1-0 sigur á laugardagskvöldið.

Rice, sem hefur spilað 72 A-landsleiki á ferlinum, hefur borið fyrirliðabandið tvisvar áður í fjarveru núverandi fyrirliða, Harry Kane. Það var í 2-2 jafntefli gegn Belgíu í mars 2024 og í 3-0 sigri á Wales í október á þessu ári.

„Fyrir mér er hann sá sem er líklega að bíða eftir að Harry leggi skóna á hilluna einhvern tímann,“ sagði Wayne Rooney í nýjasta þætti The Wayne Rooney Show á BBC Sport.

„Hann var út um allan völl [gegn Everton]. Ákvarðanatakan hans, hvenær átti að senda boltann, hvert átti að senda hann, á hvorn fótinn átti að senda hann og smáatriðin í sendingunum hans. Það var unun að horfa á. Hann var algjörlega ótrúlegur,“ sagði Rooney.

„Hann var að taka boltann af miðvörðum Arsenal, spila sem þriðji miðvörðurinn, og á næstu mínútu var hann kominn inn í teig að reyna að skora mark. Stundum er sumt af því sem hann gerir svolítið vanmetið,“ sagði Rooney.

„Hann er rétti maðurinn til að taka við af [Kane] að mínu mati, vegna drifkrafts hans og persónuleika hans. Allir virðast elska hann, þeir sem þekkja hann, þeir sem eru honum nánir. Hann er óbætanlegur fyrir England,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×