Fótbolti

Á­horf­endur ærðust eftir mögu­lega mark mótsins í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ayoub El Kaabi sést hér innsigla sigur Marokkó með þessu frábæra marki sínu.
Ayoub El Kaabi sést hér innsigla sigur Marokkó með þessu frábæra marki sínu. Getty/Fareed Kotb

Heimamenn í Marokkó opnuðu Afríkumótið í fótbolta með sigri í gær og stórkostlegri hjólhestaspyrnu sem gerði allt vitlaust á vellinum.

Magnað mark El Kaabi tryggði Marokkó 2-0 sigur á Kómoreyjum í opnunarleiknum.

Marokkó er gestgjafi mótsins og stóð á endanum undir væntingum á heimavelli í Rabat. Liðið var talið mun sigurstranglegra gegn Kómoreyjum en tók vissulega sinn tíma að brjóta ísinn.

Það var samt lítil þolinmæði hjá spenntum stuðningsmönnum sem voru heldur betur mættir til að sjá veislu. Kómoreyjar héldu þó hreinu fram að hálfleik og gestgjafarnir fengu yfir sig baul á leið sinni til búningsklefa. Eftir hlé tókst Marokkó hins vegar að skora loksins.

Markið kom tíu mínútum eftir að seinni hálfleikurinn hófst. Markið mikilvæga  skoraði Real Madrid-leikmaðurinn Brahim Diaz.

Síðan trylltust áhorfendur á heimavelli þegar Ayoub El Kaabi skoraði með hjólhestaspyrnu og kom Marokkó í 2-0 á 74. mínútu.

Marokkó var sterkari allan leikinn og klúðraði einnig vítaspyrnu snemma í leiknum en Soufiane Rahimi lét þá Yannick Pandor verja frá sér.

Sambía og Malí eru hinar tvær þjóðirnar í A-riðli. Afríkukeppnin er nú farin á fullt og heldur áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×