Handbolti

Ómar ó­stöðvandi og Magdeburg í undan­úr­slit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ómar Ingi lagði upp fyrstu tvö í seinni og skoraði næstu sex í röð.
Ómar Ingi lagði upp fyrstu tvö í seinni og skoraði næstu sex í röð. Igor Kralj/Pixsell/MB Media/Getty Images

Íslendingalið Magdeburgar komst í kvöld áfram í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í handbolta eftir sterkan sigur á Flensburg á heimavelli. Ómar Ingi Magnússon fór mikinn.

Magdeburg byrjaði betur og komst mest sex mörkum yfir í fyrri hálfleik. Flensburg skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins og staðan í hléi 18-14 fyrir Magdeburg.

Óhætt er að segja að Ómar Ingi hafi tekið yfir leikinn strax eftir hléið. Hann lagði upp fyrstu tvö mörk hálfleiksins fyrir Tim Hornke og skoraði svo sjálfur næstu sex mörk Magdeburgar.

Það var ekki fyrr en Felix Claar skoraði 27. mark Magdeburgar í leiknum, eftir 43 mínútur, sem liðið skoraði mark í seinni hálfleik sem Ómar Ingi átti ekki beina aðkomu að.

Eftir þessa grunnvinnu sem Ómar lagði í upphafi síðari hálfleiks var sigur Magdeburgar aldrei í hættu. Lykilmenn fengu hvíld á lokakaflanum en það kom ekki að sök. Leiknum lauk 35-29 og Magdeburg komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

Ómar Ingi skoraði ellefu mörk úr 13 tilraunum og gaf að auki fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu eitt mark hvor fyrir Magdeburg en Gísli lagði upp fimm að auki.

Arnar Freyr Arnarsson og Reynir Þór Stefánsson komust ekki á blað hjá Melsungen sem tapaði með sjö marka mun, 30-23, fyrir Bergischer í öðrum bikarleik kvöldsins.

Þá fór Fuchse Berlín áfram eftir nauman 32-30 sigur á Kiel í spennuleik. Daninn Matthias Gidsel fór að venju fyrir Berlínarliðinu með níu mörk og fimm stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×