Formúla 1

Verstappen fær nýjan liðsfélaga

Aron Guðmundsson skrifar
Verstappen og Hadjar verða liðsfélagar á næsta tímabili hjá Red Bull Racing. Hér ræða þeir saman fyrr á yfirstandandi tímabili
Verstappen og Hadjar verða liðsfélagar á næsta tímabili hjá Red Bull Racing. Hér ræða þeir saman fyrr á yfirstandandi tímabili Vísir/Getty

Isack Hadjar verður liðsfélagi Max Verstappen hjá Red Bull Racing í Formúlu 1 frá og með næsta tímabili.

Þetta var staðfest í gær en Hadjar, sem er að þreyta frumraun sína í mótaröðinni á yfirstandandi tímabili, hefur tekist að heilla með systur liði Red Bull, Racing Bulls.

Hápunktur tímabilsins til þessa hjá Hadjar hefur án efa verið þegar að hann tryggði sér sæti á verðlaunapalli í hollenska kappakstrinum í Zandvoort undir lok ágústmánaðar með því að enda í þriðja sæti.

Alls hefur Hadjar unnið sér inn 51 stig í mótaröðinni til þessa, átján stigum meira en Yuki Tsunoda sem er núverandi liðsfélagi Verstappen.

Síðasta keppnishelgi tímabilsins er framundan í Abu Dhabi þar sem að þrír ökuþórar, þeir Lando Norris, Oscar Piastri og Max Verstappen, eiga allir möguleika á því að standa uppi sem heimsmeistari

Með skiptum Hadjar yfir til Red Bull Racing hafa Racing Bulls nú þegar fundið arftaka hans. Hinn 18 ára gamli Arvid Lindblad sem kept hefur í Formúlu 2 á yfirstandandi tímabili, mun taka sæti hans. Þar með eru öll lið fullskipuð fyrir næsta tímabili Formúlu 1 mótaraðarinnar og ekkert pláss fyrir Tsunoda þar.

Hadjar fær það risavaxna verkefni í hendurnar að reyna ná tökum á bíl Red Bull Racing sem ökuþórum, sem áður hafa verið liðsfélagar Max Verstappen hjá liðinu, hefur gengið erfiðlega að gera.

Verstappen hefur sótt 396 stig af þeim 426 stigum sem Red Bull Racing hefur sótt á yfirstandandi tímabili sem segir sitt hvað um þá erfiðleika sem þeir ökuþórar, utan Verstappens, hafa þurft að glíma við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×