Enski boltinn

Lög­reglu­menn hefðu verið á­kærðir vegna Hillsborough-slyssins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, þáverandi stjóri Liverpool, á þessum hræðilega degi á Hillsborough í apríl 1989. Brian Clough sýnir honum stuðning.
Kenny Dalglish, þáverandi stjóri Liverpool, á þessum hræðilega degi á Hillsborough í apríl 1989. Brian Clough sýnir honum stuðning. Vísir/Getty

Tólf lögreglumenn hefðu átt yfir höfði sér ákæru fyrir alvarlegt brot í starfi vegna Hillsborough-slyssins, samkvæmt langþráðri skýrslu.

Fyrrverandi lögreglustjóri Suður-Yorkshire (SYP), Peter Wright, og yfirlögregluþjónninn David Duckenfield eru meðal þeirra lögreglumanna sem hefðu þurft að svara til saka eftir að 97 stuðningsmenn Liverpool létust í troðningi á Hillsborough-leikvanginum þann 15. apríl 1989.

Í skýrslu Óháðu eftirlitsnefndarinnar með lögreglunni (IOPC) kom fram að um samstilltar tilraunir til að kenna stuðningsmönnum um eftir slysið hefði verið að ræða. Breska ríkisútvarpið fjallar um skýrsluna.

Nefndin staðfesti einnig eða komst að niðurstöðu um brot í starfi í 92 kvörtunum, en lög þess tíma gera það að verkum að engir lögreglumenn munu sæta agaviðurlögum þar sem þeir voru allir komnir á eftirlaun áður en rannsóknir hófust árið 2012.

Lögunum var breytt árið 2017 þannig að lögreglumenn á eftirlaunum myndu nú sæta ákæru fyrir brot í starfi, en lögin hafa ekki afturvirk áhrif.

Biturt óréttlæti

Nicola Brook, lögmaður hjá Broudie Jackson Canter sem kemur fram fyrir hönd nokkurra fjölskyldna aðstandenda, sagði það „biturt óréttlæti“ að enginn yrði látinn sæta ábyrgð.

Núverandi lögreglustjóri Suður-Yorkshire, Lauren Poultney, sagðist „biðjast innilega afsökunar á þeim sársauka og sorg sem olli“ vegna „fjölda bresta“ lögreglunnar.

Ekkert tekur burt áralangan sársauka

„Það er ekkert sem ég get sagt í dag sem getur tekið burt áralangan sársauka og sárindi sem lögreglan sem ég nú leiði olli,“ sagði hún.

Brook sagði að skýrsla IOPC „afhjúpi kerfi sem hefur gert lögreglumönnum kleift að ganga einfaldlega í burtu, fara á eftirlaun án eftirlits, viðurlaga eða afleiðinga fyrir að uppfylla ekki þær kröfur sem almenningur hefur fullan rétt á að vænta“.

Helstu niðurstöður

Helstu niðurstöður hinnar 366 blaðsíðna skýrslu eru meðal annars:

Hinn látni Wright hefði átt yfir höfði sér mál vegna tíu meintra brota á agareglum lögreglunnar vegna aðgerða sinna í kjölfar slyssins

Fyrrverandi yfirlögregluþjónninn David Duckenfield, sem var yfirmaður aðgerða á leikdegi, hefði átt yfir höfði sér tíu meint brot fyrir „misbresti í ákvarðanatöku og samskiptum í tengslum við stjórnun í aðdraganda leiksins“ auk „fjölda lykilbresta í stjórnun þegar mannfjöldinn jókst“.

Átta aðrir lögreglumenn hefðu þurft að svara til saka fyrir hlutverk sitt í undirbúningi og löggæslu á leiknum, viðbrögðum sínum við slysinu eða þætti sínum í tilraunum til að varpa sökinni á aðra eftir á.

Fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri WMP, Mervyn Jones, og rannsóknarlögreglustjórinn Michael Foster hefðu þurft að svara til saka fyrir hlutverk sitt í að leiða rannsóknina á slysinu, meðal annars fyrir „meinta hlutdrægni í garð lögreglu og gegn stuðningsmönnum“ og fyrir að grípa ekki inn í breytingar á lögregluskýrslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×