Handbolti

Norð­menn og Danir kláruðu sitt en Svíar klikkuðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk var markahæst í norska landsliðinu í kvöld.
Nora Mörk var markahæst í norska landsliðinu í kvöld. EPA/Beate Oma Dahle

Noregur og Danmörk tryggðu sér efsta sætið í sínum riðli með sigri í lokaumferðinni í riðlakeppni HM kvenna í handbolta í kvöld. Svíar gátu gert hið sama en töpuðu á móti Brasilíu.

Norska landsliðið átti ekki í miklum vandræðum með Angóla og vann á endanum með tólf marka mun, 31-19, eftir að hafa verið 19-10 yfir í hálfleik.

Noregur, sem er á fyrsta stórmóti sínu í langan tíma án Þóris Hergeirssonar, vann alla þrjá leiki sína í riðlinum með samtals 52 mörkum eða með 17,3 mörkum að meðaltali í leik.

Nora Mörk var markahæst með sex mörk en Henny Reistad skoraði fimm mörk. Katrine Lund varði tíu skot eða fimmtíu prósent skota sem á hana komu.

Danir unnu á sama tíma átta marka sigur á Rúmeníu, 39-31, en þetta var hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum. Danir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 21-18, en þær rúmensku voru komnar yfir í byrjun seinni. Þá gaf danska liðið í og kláraði leikinn sannfærandi.

Það var mun meiri spenna í leik Svíþjóðar og Brasilíu en þær brasilísku unnu á endanum fjögurra marka sigur, 31-27. Svíar komust mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleiknum og voru 16-15 yfir í hálfleik. Þær brasilísku voru sterkari í seinni hálfleiknum.

Sigurinn þýðir að Brasilía vinnur leikinn og riðilinn og tekur með sér fjögur stig inn í milliriðilinn. Sömu sögu er að segja af Noregi og Danmörku.

Ungverjar tryggðu sér síðan sigur í sínum riðli með sannfærandi sjö marka sigri á Sviss 32-25. Sviss var reyndar einu marki yfir í hálfleik, 14-13, en þær ungversku keyrðu yfir þær í þeim seinni, sem þær unnu 19-11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×