Formúla 1

Reiður eftir á­sakanir um svindl: „Hversu heilalaus þarftu að vera?“

Sindri Sverrisson skrifar
Lando Norris var fyrir aftan Kimi Antonelli þar til á næstsíðasta hringnum að hann komst fram úr.
Lando Norris var fyrir aftan Kimi Antonelli þar til á næstsíðasta hringnum að hann komst fram úr. Getty/Clive Mason

Toto Wolff, framkvæmdastjóri Formúlu 1 liðs Mercedes, lýsti verkfræðingi Red Bull liðsins sem „heilalausum“ eftir ásakanir um svindl í lokin á næstsíðustu keppni tímabilsins í gær.

Mikil spenna er fyrir lokakappakstrinum eftir að Max Verstappen hjá Red Bull fagnaði sigri í gær og minnkaði forskot Lando Norris niður í tólf stig.

Hins vegar væri munurinn aðeins tíu stig ef að Norris, sem ekur fyrir McLaren hefði ekki komist fram fyrir Kimi Antonelli hjá Mercedes á næstsíðasta hringnum, og komist upp í fjórða sæti.

Margir virtust telja að þarna væri um spillingu að ræða og að Antonelli hefði hreinlega hleypt Norris fram úr sér því að Mercedes vildi hjálpa McLaren. Þannig var það alla vega með Gianpiero Lambiase, keppnisverkfræðing hjá Red Bull, sem sagði við Verstappen í gegnum talstöðina að „Antonelli hefði vikið til hliðar og hleypt Norris framhjá“.

Wolff var reiður yfir þessu og taldi ummælin hafa valdið því að margir fóru á flug á samfélagsmiðlum.

„Þetta er algjört kjaftæði. Maður botnar ekkert í því að heyra svona lagað,“ sagði Wolff.

„Við erum í baráttunni um 2. sæti í keppni bílasmiða, sem er mikilvægt fyrir okkur. Kimi var að berjast um að ná mögulega 3. sæti. Hversu heilalaus þarftu að vera til að segja eitthvað svona? Þetta angrar mig því ég er líka argur yfir því hvernig keppnin fór. Ég er svekktur yfir mistökunum í lokin. Ég er svekktur yfir fleiri mistökum og maður er furðu lostinn þegar maður heyrir svo eitthvað svona,“ sagði Wolff.

Hann sagði Lambiase svo hafa beðist afsökunar á ummælum sínum og sagst ekki hafa séð hvernig það gerðist að Norris komst fram úr Antonelli. Sjálfur kvaðst Antonelli ansi svekktur að hafa endað fimmti eftir að hafa verið svo nálægt því að komast á verðlaunapalll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×