Handbolti

Fagna nýjum samningi við Díönu rétt fyrir HM

Sindri Sverrisson skrifar
Díana Dögg Magnúsdóttir hefur unnið sér inn stórt hlutverk hjá Blomberg-Lippe.
Díana Dögg Magnúsdóttir hefur unnið sér inn stórt hlutverk hjá Blomberg-Lippe. hsg-blomberg-lippe.de

Díana Dögg Magnúsdóttir, sem á miðvikudaginn verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í fyrsta leik á HM í handbolta, hefur skrifað undir nýjan samning við eitt besta lið þýska handboltans, Blomberg-Lippe.

Á heimasíðu Blomberg-Lippe segir að Díana sé orðin, á aðeins sínu öðru tímabili með toppliði þýsku deildarinnar, orðin algjör lykilmaður. Hún kom til félagsins frá Sachsen Zwickau þar sem hún var í fjögur ár og þekkir því orðið afar vel til í Þýskalandi, þar sem HM fer einmitt fram.

Auk Díönu eru Elín Rósa Magnúsdóttir og Andrea Jacobsen einnig í liði Blomberg-Lippe sem eins og fyrr segir er efst í þýsku úrvalsdeildinni. Þá vann liðið öruggan sigur á Val í einvígi um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og því afar spennandi vetur fram undan.

„Ég er mjög ánægð með að spila áfram með HSG [Blomberg-Lippe]. Hérna get ég þróast og safnað reynslu með þessu góða og sterka liði,“ sagði Díana á heimasíðu félagsins.

Vinnuveitendur hennar hrósa happi yfir því að Díana hafi skrifað undir nýjan samning.

„Ég er mjög ánægður með að Díana, leikmaður sem sýndi okkur og liðinu á síðasta tímabili hversu mikilvæg hún er, bæði með spilamennsku sinni og persónuleika, og hversu stóran þátt hún átti í heildarárangrinum, muni halda áfram að spila fyrir HSG. Díana getur spilað bæði sem hægri skytta og leikstjórnandi og gefur þjálfarateyminu þar með fleiri taktíska möguleika“, segir Jan-Henning Himborn, framkvæmdastjóri HSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×