Formúla 1

Hamilton líður ömur­lega á versta tíma­bili ferilsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þungt er yfir Lewis Hamilton þessa dagana.
Þungt er yfir Lewis Hamilton þessa dagana. getty/Jayce Illman

Lewis Hamilton segir að þetta tímabil, hans fyrsta hjá Ferrari, sé það versta á ferli hans.

Hamilton gekk í raðir Ferrari frá Mercedes fyrir þetta tímabil. Illa hefur gengið hjá Englendingnum í ár en hann hefur ekki enn komist á verðlaunapall og er í 6. sæti í keppni ökuþóra.

Allt gekk á afturfótunum hjá Hamilton í kappakstrinum í Las Vegas um helgina. Hann var neðstur í tímatökunni og endaði í 8. sæti í keppninni sjálfri, eftir að báðir ökumenn McLaren voru dæmdir úr leik. Það gerði þó lítið til að gleðja Hamilton.

„Mér líður ömurlega. Þetta hefur verið versta tímabil mitt og sama hvað ég reyni verður það bara verra,“ sagði sjöfaldi heimsmeistarinn.

Ferrari er í 4. sæti í keppni bílasmiða en Hamilton segir að möguleikinn á að ná 3. sætinu kæti hann ekki mikið.

„Ég veit ekki einu sinni hvað við erum með mörg stig en með þessu áframhaldi, með minni frammistöðu, erum við búnir að vera,“ sagði Hamilton.

Charles Leclerc, samherji Hamiltons hjá Ferrari, er í 5. sæti í keppni ökuþóra. Hann er með 226 stig en Hamilton 152 fyrir síðustu tvær keppnir tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×