Atvinnulíf

Hvort ætli A eða B týpurnar séu betri í vinnu?

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sumir segjast B-týpur, finnst gott að vaka frameftir og komast jafnvel í sitt besta stuð til að vinna þá. Á meðan aðrir sofna snemma og finnst morgnarnir langbestir til vinnu. Hvort ætli sé betra að vera A eða B týpa?
Sumir segjast B-týpur, finnst gott að vaka frameftir og komast jafnvel í sitt besta stuð til að vinna þá. Á meðan aðrir sofna snemma og finnst morgnarnir langbestir til vinnu. Hvort ætli sé betra að vera A eða B týpa? Vísir/Getty

Það hlýtur að hljóma auðveldara í eyrum margra, að vera A týpa. Sofna snemma á kvöldin, vera alveg til í að vakna snemma og allt sem heitir að halda í snús-takkann eins lengi og hægt er hvern morgun, er óþarfi.

En er það svo?

Því sitt sýnist hverjum um hvort er betra; að vera A eða B týpa.

Rannsóknir sýna til dæmis að það að vera B-týpa getur verið hið besta mál fyrir heilann. Í umfjöllun The Guardian frá í fyrra, segir frá rannsókn sem náði til 26 þúsund manns. Allir sem tóku þátt, höfðu þá þegar þreytt próf sem mældi greind, rökhugsun, viðbragð og minni.

Vísindamennirnir skoðuðu þessu til viðbótar síðan allt um svefninn. Hvort fólk væri A eða B týpur, í hversu marga klukkutíma fólk var að sofa, hver gæði svefnsins er, hvernig svefnvenjurnar voru og svo framvegis. Allt þetta var síðan sett í samhengi við áhrif svefns á heila. Sem þegar var vitað að eru umtalsverð.

Í niðurstöðunum kom hins vegar fram að fólk sem vakir lengur á kvöldin, eru B-týpur eins og við köllum það, virðast skara fram úr í athygli og minni, svo eitthvað sé nefnt. B-týpurnar virðast líka skara fram úr í getunni til að læra eða beita rökhugsun. 

Hér skal þó áréttað að langbesta niðurstaðan byggir alltaf á því að fólk fái nægan svefn; sofi í sjö til níu klukkustundir á nóttu.

Það telst nú varla slæmt að teljast skara svona fram úr í vitsmunalegri getu og því hljóta B-týpurnar að vera sigri hrósandi yfir fréttunum. 

En eins og í öllu, er aldrei hægt að staðhæfa um of um neitt. 

Því í grein sem Forbes birti í vor, kemur fram að samkvæmt rannsóknum teljast A-týpurnar afkastameiri og lausnamiðaðri en fólk sem vakir lengi fram eftir. Og það sem meira er: Morgunhanarnir mælast almennt ánægðari með lífið, eru hamingjusamari.

Á móti kemur er að náttuglubhópurinn, B-týpurnar, virðast skáka öðrum hópum þegar kemur að sköpun og hugmyndaauðgi. Enda löngum alkunna að listafólk er margt þekkt fyrir að vera miklar B-týpur.


Tengdar fréttir

Smá kvef, hausverkur eða flensa og vinnan

Þótt vitað sé að ákveðinn hópur fólks stundi að misnota veikindaréttinn sinn í vinnunni, sýna rannsóknir það víða um heim að meirihluti fólks á það til að mæta í vinnuna, þótt það sé veikt.

Næsti yfirmaðurinn þinn gæti verið gervigreind

Nú þegar heilu bíómyndirnar eru framleiddar án mannfólks er það að verða sýnilegra með hverjum deginum, hvernig gervigreindin mun taka yfir ólíklegustu hlutverk í atvinnulífinu.Þar á meðal hlutverk stjórnenda.

X-kynslóðin: Oft gleymd en ómissandi

Það er svo mikið talað um Z-kynslóðina að aðrar kynslóðir falla eiginlega í skuggann. Ekki síst X-kynslóðin, sem þó er ein sú mikilvægasta á vinnumarkaði í dag: Fædd tímabilið 1965-1979 og á því heillangan tíma eftir á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×