Formúla 1

Fjór­tán ára dóttir Häkkinens gengur til liðs við McLaren

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mika Hakkinen með dóttur sína Ella Hakkinen og eiginkonuna Marketu Remesova.
Mika Hakkinen með dóttur sína Ella Hakkinen og eiginkonuna Marketu Remesova. Getty/ Jure Makovec

Ella Häkkinen, dóttir tvöfalda heimsmeistarans í Formúlu 1, Mika Häkkinen, hefur verið bætt við þróunarlið ökumanna hjá McLaren.

Hin fjórtán ára gamla hefur unnið sigra og komist á verðlaunapall víðs vegar um Evrópu í go-kart-akstri og verður yngsti ökumaðurinn í framtíðarliðinu hjá McLaren.

Hún fær til liðs við sig bresku stúlkuna Ellu Stevens, sem er eina konan sem hefur sigrað í efsta go-kart-flokki Bretlands.

Stevens, sem er nítján ára, mun keppa fyrir hönd heimsmeistara bílasmiða í Formúlu 1, McLaren, ásamt bresku stúlkunni Ellu Lloyd, tvítugri, í F1 Academy-kvennamótaröðinni árið 2026.

McLaren sagði að Häkkinen myndi prófa eins sætis bíla til undirbúnings fyrir árið 2027.

Mika Häkkinen, sem vann Formúlu 1-titilinn með McLaren árin 1998 og 1999, telur að dóttir sín gæti orðið framtíðarstjarna í íþróttinni.

„Ella er einstaklega hæfileikaríkur ökumaður. Ég segi þetta ekki bara sem faðir, heldur byggt á athugunum mínum sem fyrrverandi toppökumaður,“ sagði Mika Häkkinen við finnska blaðið Ilta-Sanomat í síðasta mánuði.

Það er gaman fyrir marga að sjá Häkkinen nafnið aftur í formúlunni en einvígi Häkkinen og Michael Schumacher var ógleymanlegt fyrir þá sem upplifðu það á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×