Fótbolti

„Mjög spennt að sjá hvað þær geta“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Agla María er fyrirliði Íslandsmeistaranna. 
Agla María er fyrirliði Íslandsmeistaranna.  vísir

Íslandsmeistarar Breiðabliks rúlla boltanum af stað í glænýrri Evrópubikarkeppni á Kópavogsvelli í kvöld. Fortuna Hjörring kemur í heimsókn og Blikafyrirliðinn Agla María Albertsdóttir er spennt að máta liðið við dönsku meistarana.

„Ég er mjög spennt að sjá hvað þær geta, eða þannig, sjá hversu góð danska deildin er. Alltaf gaman að mæta alvöru liði“ sagði Agla María í samtali við Vísi.

„Ég átta mig ekki alveg fullkomnlega á því [hvar íslensku meistararnir standa gegn dönsku meisturunum], við erum bara búnar að fara yfir leiki sem þær spila í deildinni hjá sér.

Ég held að danska deildin sé betri en sú íslenska, en hversu mikið betri? Maður áttar sig ekki alveg á því, en þetta er mjög vel spilandi lið“ sagði Agla María einnig um andstæðing kvöldsins en tók fram að Breiðablik stefndi á að afsanna það, að danska deildin væri betri en sú íslenska.

Tæpur mánuður síðan tímabilið í Bestu kláraðist 

Undirbúningurinn fyrir þetta tveggja leikja einvígi hefur verið aðeins slitróttur hjá Blikunum því tímabilið í Bestu deildinni kláraðist fyrir tæpum mánuði.

„Flestar fengu frí eftir að við kláruðum deildina, sem var mjög gott, en ég var reyndar í landsliðsverkefni. Svo byrjuðu æfingar aftur eftir það, þannig að þetta hefur ekkert verið svo langur tími og það er bara skemmtilegra að spila svona leik, frekar en að vera að byrja undirbúningstímabil. Þetta er bara gaman.“

Síðustu leikirnir undir stjórn Nik

Þessir tveir leikir, á Kópavogsvelli í kvöld og úti í Danmörku næsta miðvikudag, verða síðustu leikir liðsins undir stjórn Nik Chamberlain og aðstoðarþjálfara hans, Eddu Garðarsdóttur.

Ian Jeffs tekur svo við störfum sem nýr aðalþjálfari liðsins, hann er reyndar nú þegar byrjaður í skrifstofustörfunum og hefur átt í fullu fangi við að framlengja samninga við leikmenn liðsins.

Agla María er ekki ein af þeim sextán sem eru að renna út á samningi og líst vel á verðandi þjálfarann.

„Ég er með samning í eitt ár til viðbótar en það eru margar sem eiga eftir að semja og vonandi klárast það fljótlega. Gott að Berglind sé búin að semja og nú þegar það er búið að ráða nýjan þjálfara eru leikmenn auðvitað líklegri til að vilja endursemja, það er lykilatriði.

Ég var mjög sátt með þessa ráðningu. Mér datt hún að vísu ekki strax í hug, þegar við vorum að velta fyrir okkur nýjum þjálfara, en ég þekki aðeins til hans og hann er virkilega góður taktískur þjálfari. Smástund síðan hann var í kvennaboltanum en ég held að þetta sé mjög öflug ráðning fyrir okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×