Fótbolti

Daníel Tristan skoraði sigur­mark Malmö

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen var í stóru hlutverki hjá Malmö á þessu tímabili.
Daníel Tristan Guðjohnsen var í stóru hlutverki hjá Malmö á þessu tímabili. vísir/anton

Hinn nítján ára Daníel Tristan Guðjohnsen var hetja Malmö gegn GAIS í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag. Malmö vann 2-1 sigur.

Daníel skoraði sigurmark heimamanna á 63. mínútu. Þetta var fimmta mark hans í sænsku deildinni á tímabilinu en hann lagði einnig upp sex mörk.

Arnór Sigurðsson er enn frá vegna meiðsla hjá Malmö sem endaði í 6. sæti. Róbert Frosti Þorkelsson lék ekki með GAIS sem lauk keppni í 3. sæti.

Norrköping tapaði enn einum leiknum, nú gegn Gautaborg, 2-0, og þarf að fara í umspil til að halda sæti sínu í deildinni.

Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru í byrjunarliði Norrköping og Jónatan Guðni Arnarsson kom inn á sem varamaður.

Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn fyrir Gautaborg sem lenti í 4. sæti.

Júlíus Magnússon og félagar í Elfsborg töpuðu sínum þriðja leik í röð þegar þeir sóttu Hammarby heim, 3-1. Júlíus var í byrjunarliði Elfsborg en var tekinn af velli undir lok leiks. Elfsborg endaði í 8. sæti.

Mikael Neville Anderson lék ekki með Djurgården sem laut í lægra haldi fyrir Öster, 1-3. Djurgården endaði í 5. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×