Fótbolti

Fá ekki hollensku stjörnuna til að yfir­gefa rán­dýra hótelsvítu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Memphis Depay vill væntanlega ekkert hlusta á það að þurfa að flytja úr svítunni.
Memphis Depay vill væntanlega ekkert hlusta á það að þurfa að flytja úr svítunni. Getty/ Rene Nijhuis

Hollenski landsliðsmaðurinn Memphis Depay er að lifa ljúfa lífinu í Brasilíu þar sem hann fékk samning hjá Corinthians. Corinthians er nú að reyna að fá kappann til að slaka aðeins á kröfunum sínum þegar kemur að búsetu.

Depay keypti ekki íbúð eða leigði sér hús. Hann býr í flottustu hótelsvítunni í boði í borginni São Paulo, heimaborg Corinthians.

Corinthians hefur nú beðið Depay um að yfirgefa hótelsvítuna þar sem hann býr því þeir vilja að hann finni sér ódýrari íbúð

Svítan kostar 46 þúsund dollara á mánuði eða um 5,9 milljónir íslenskra króna.

Brasilíska félagið greiðir fyrir eftirfarandi: Herbergisþjónustu og mat, þrif, einkabryta, einkakokk, persónulegan öryggisvörð, brynvarinn bíl og einkabílstjóra.

Forráðamenn félagsins telja jafnframt að það verði mjög erfitt að fá hann til að yfirgefa hótelið því það er kveðið á um þetta í samningi hans og hann vill ekki gefa þessi þægindi eftir.

Depay er með níu mörk og tíu stoðsendingar í 44 leikjum fyrir Corinthians á þessu tímabili.

Depay er nú 31 árs gamall en hann kom til Corinthians frá spænska félaginu Atlético Madrid. Hann hefur einnig spilað fyrir Manchester United, Barcelona, Lyon og PSV Eindhoven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×