Fótbolti

Segir Wirtz enn vera að venjast leikjaálaginu

Siggeir Ævarsson skrifar
Florian Wirtz hefur farið hægt af stað hjá Liverpool.
Florian Wirtz hefur farið hægt af stað hjá Liverpool. EPA/ADAM VAUGHAN

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var spurður út í frammistöðu Florian Wirtz á blaðamannafundi í dag fyrir leik Liverpool í Meistaradeildinni en Slot biður fólk um að sýna Wirtz þolinmæði meðan hann aðlagast ensku deildinni.

Wirtz varð dýrasti leikmaður í sögu Liverpool þegar hann kom frá Bayer Leverkusen fyrir 116 milljónir punda í sumar. Hann hefur ekki beinlínis sett mark sitt á ensku deildina ennþá þar sem hann hefur hvorki skorað né lagt upp mark og þá hefur hann byrjað reglulega á bekknum undanfarið.

„Þú getur sagt að hann hafi byrjað einn af síðustu fjórum leikjum en þú getur líka sagt að hann hafi þegar byrjað átta, níu, tíu, ellefu leiki þetta tímabilið. Ég hef sagt þetta oft, og er ekki að nota þetta sem afsökun heldur bara til að útskýra stöðuna. Við höfum oft þurft að spila þrjá leiki á sjö dögum.“ 

Hann vildi meina að þó tölfræðin endurspegli það ekki endilega hafi Wirtz haft áhrif á marga leiki.

„Hann hefur haft áhrif í mörgum leikjum en hefur verið óheppinn með að fara alla leið, bæði hann sjálfur og liðsfélagar hans. En hann kom með nákvæmlega það sem við reiknuðum með. Hann er leikmaður sem getur skapað mikið fyrir liðið og mun skora. En ég held að það komi engum á óvart að 22, 23 ára leikmaður sem kemur úr annarri deild, þurfi smá tíma til að aðlagast ákefðinni þegar það er spilað á þriggja daga fresti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×