Erlent

Allt undir hjá for­setanum hárprúða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur hótað að skera á lánalínurnar til Argentínu bæti Milei ekki við sig þingsætum.
Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur hótað að skera á lánalínurnar til Argentínu bæti Milei ekki við sig þingsætum. AP

Argentínumenn ganga í dag til þingkosninga sem taldar eru prófsteinn fyrir Javier Milei, hinn hárprúða forseta landsins. Róttæk frjálshyggja hans er undir í kosningunum enda hægara sagt en gert að koma stefnumálum sínum í gegn án fleiri sæta í þinginu.

Kosið er um helming þingsæta í neðri deild argentínska þingsins og þriðjung sæta í öldungadeildinni. Í dag er Frelsisframsóknarflokkur Milei í minnihluta í báðum deildum en þar sem í Argentínu er forsetaræði er flokkurinn í ríkisstjórn.

Róttæk „raflostsmeðferð“ ríkisstjórnar Milei á efnahagi landsins hefur fengið misjafnar móttökur. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur einnig hækkað þrýstinginn á forsetann enn frekar en Bandaríkjastjórn hefur stutt við róttæka sýn Milei með tugmilljarða dala fjárútlátum. Gangi Milei hins vegar illa í kosningunum, hefur Donald Trump sagst munu skera á lánveitinguna.

Markmið Milei er að hans sögn að fá um þriðjung sæta í báðum deildum og yfirlýsingar Trump Bandaríkjaforseta hafa verið túlkaðar sem tilraun til að hvetja Argentínumenn til að fylkja sér á bak við forsetann.

„Ekki gefast upp því við erum komin hálfa leið. Við erum á góðri vegferð,“ sagði Milei þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í Rosario-borg á kosningafundi á dögunum, að því er Reuters greinir frá.

Í tíð sinni í embætti hefur Milei tekist að draga úr verðbólgu í Argentínu sem hefur lengi verið ein sú mesta í heimi. Niðurskurðarstefna hans hefur valdið því að efnahagur margra Argentínumanna hefur margbatnað en annarra versnað svo um munar.

Kjörstaðir loka klukkan níu og fyrstu niðurstæðna er að vænta upp úr miðnætti að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×