Handbolti

Nefndin svaf á verðinum og Ívar Logi slapp eftir „hræði­legt“ brot

Sindri Sverrisson skrifar
Ívar Logi Styrmisson þótti sleppa afar vel með að fá ekki rautt spjald gegn Aftureldingu.
Ívar Logi Styrmisson þótti sleppa afar vel með að fá ekki rautt spjald gegn Aftureldingu. Skjáskot/Youtube

Ívar Logi Styrmisson, handknattleiksmaður Fram, slapp með skrekkinn eftir að málskotsnefnd HSÍ var of lengi að vísa broti hans til aganefndar sambandsins.

Ívar Logi þótti brjóta með hættulegum hætti af sér á Ágústi Inga Óskarssyni, leikmanni Aftureldingar, í leik í Olís-deildinni þann 2. október. Brotið má sjá hér að neðan ásamt umræðum í þættinum Handboltahöllinni um hve alvarlegt það hefði verið.

Ívar Logi, sem hafði einnig brotið af sér fyrr í leiknum, fékk hins vegar enga brottvísun og því útlit fyrir að brot hans hafi farið framhjá dómurum leiksins.

Í slíkum tilvikum getur málskotsnefnd HSÍ vísað málum til aganefndar. Það gerði hún hins vegar ekki fyrr en 8. október, eða sex dögum eftir leik Fram og Aftureldingar. 

Samkvæmt reglum HSÍ um agamál er skýrt að málskotsnefnd hefur aðeins fimm daga til að vísa málum til aganefndar sem þar af leiðandi vísaði málinu frá. Í úrskurði aganefndar segir að þar sem engir almennir frídagar hafi verið frá því að leiknum lauk og þar til að málinu var vísað til aganefndarinnar, þá sé ljóst að málskotið hafi komið of seint. Helgar teljist ekki til almennra frídaga.

„Ég ætla ekki að gera Ívari Loga upp eitthvað en þetta lítur hræðilega út. Hvernig hann slæmir hendinni í löppina á honum,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson í umræðum um brotið.

„Þetta er náttúrulega rautt. Hann ber ábyrgð á hendinni á sér. Hann fer greinilega í hann og höndin ætti að gefa eftir, en það snýst upp á leikmanninn. Það er bara heppni að Ágúst meiðir sig ekki,“ sagði Ásbjörn Friðriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×