Handbolti

Hæst­á­nægð þrátt fyrir krefjandi á­skoranir utan vallar

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir hefur átt frábært haust í Svíþjóð og tekur það vonandi með sér í komandi landsleiki.
Elín Klara Þorkelsdóttir hefur átt frábært haust í Svíþjóð og tekur það vonandi með sér í komandi landsleiki. vísir/Lýður

„Þetta verður krefjandi leikur en við mætum tilbúnar í þetta,“ segir Elín Klara Þorkelsdóttir, landsliðskona í handbolta, fyrir slaginn við Færeyinga á miðvikudagskvöld í Lambhagahöllinni.

Leikurinn er sá fyrsti í nýrri undankeppni EM en einnig undirbúningur fyrir næsta stórmót því Ísland er svo á leiðinni á HM í Stuttgart undir lok næsta mánaðar.

Elín Klara er mætt til Íslands með mikið sjálfstraust því hún hefur verið mögnuð og jafnan markahæst í fyrstu leikjum sínum í atvinnumennsku, með sænska liðinu Sävehof. Hún ræddi við Val Pál Eiríksson fyrir æfingu landsliðsins.

Klippa: Elín Klara klár í krefjandi landsleik

„Þetta hefur bara farið vel af stað [í Svíþjóð]. Ég er mjög ánægð þarna. Deildin er bara skemmtileg og frekar jöfn, svo allt getur gerst í öllum leikjum. Það er rosalega skemmtilegt og maður þarf að mæta hundrað prósent í alla leiki. Svo erum við búnar að spila tvo Evrópuleiki, fórum til Portúgals, og þetta byrjar bara mjög vel,“ segir Elín Klara afar hógvær.

Ánægð á nýjum stað en tungumálið áskorun

Utan vallar hefur einnig gengið vel að koma sér fyrir, þó að vissulega fylgi því áskoranir að flytja að heiman:

„Mamma, pabbi og kærastinn minn komu með mér út og hjálpuðu mér. Ég er á mjög þægilegum stað, Gautaborg er ógeðslega flott borg og ég er mjög ánægð. Auðvitað er mjög krefjandi að flytja að heiman en það er ógeðslega gaman að spila í umhverfi þar sem allir vilja verða betri og ná langt.

Þær eru eiginlega allar sænskar þarna svo að tungumálið er áskorun, og utan handboltans eru ótrúlega margar áskoranir. Auðvitað líka í handboltanum en í þessu felst svona mesti munurinn,“ segir Elín Klara sem er 21 árs gömul.

Eins og fyrr segir er stutt í næsta stórmót en Elín Klara er bjartsýn á framhaldið hjá íslenska landsliðinu, þrátt fyrir breytingar á mannskap:

„Við erum margar hérna sem voru á síðasta stórmóti en við erum líka búnar að missa stóra og góða leikmenn. Við þurfum bara að slípa okkur saman og ég hef fulla trú á liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×