Erlent

Nafn­greina á­rásar­manninn í Manchester

Agnar Már Másson skrifar
Friðþægingardagurinn er allrahelgasti dagur gyðinga.
Friðþægingardagurinn er allrahelgasti dagur gyðinga. Getty

Lögreglan í Manchester hefur nafngreint manninn sem réðst inn í bænahús gyðinga í Manchester í morgun og tók tvo af lífi. 

Árásarmaðurinn hét Jihad Al-Shamie og var 35 ára Breti af sýrlenskum uppruna. Hann var felldur af lögreglu á vettvangi. 

Tveir karlmenn voru stungnir til bana og þrír til viðbótar eru alvarlega særðir en bænahúsið er við Middle Road í Crumpsall í Manchester. 

Lögregla skilgreinir árásina sem hryðjuverk og hefur aukinheldur gefið út að þrennt hafi verið handtekið til viðbótar í tengslum við árásina; tveir karlmenn á fertugsaldri og ein kona á sjötugsaldri.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni bresku lögreglunnar að grunsamlegt tæki sem árásarmaðurinn virtist hafa klæðst hafi ekki reynst vera sprengja.

Árásin gerist á friðþægingardegi, eða jom kippur, sem er allrahelgasti dagur gyðingdóms en hann er haldinn tíu dögum eftir nýársdag í hinu gyðinglega dagatali.

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur fordæmt árásina og þá hefur Karl Bretlandskonungur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsir yfir mikilli sorg vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×