Fótbolti

Víkingur vann bikarinn úr aukaspyrnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Víkingur Ólafsvík vann Fótbolta.net bikarinn þökk sé aukaspyrnum Luis Alberto. 
Víkingur Ólafsvík vann Fótbolta.net bikarinn þökk sé aukaspyrnum Luis Alberto. 

Víkingur Ólafsvík vann 2-0 gegn Tindastóli í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli um Fótbolta.net bikarinn. Bæði mörkin voru skoruð eftir aukaspyrnu en hið fyrra var einkar glæsilegt.

Staðan var markalaus eftir hnífjafnan fyrri hálfleik og ljóst var að framkalla þyrfti einhvers konar töfra til að vinna þennan slag.

Luis Alberto Diez Ocerin tók til sinna ráða í upphafi seinni hálfleiks og skoraði stórkostlegt mark. Úr aukaspyrnu sem flestir hefðu nýtt til að gefa fyrir ákvað hann að láta bara vaða og boltinn sveif við samskeytin á leið sinni í netið.

Luis fékk svo aðra aukaspyrnu um miðjan seinni hálfleik. Þá ákvað hann að gefa fyrir og hitti beint á enni Ivan Lopez sem stýrði boltanum í netið.

Skömmu áður en það gerðist vildi Tindastóll vítaspyrnu þegar David Bercedo féll við í teignum, en fékk ekkert fyrir sinn snúð.

Ólsararnir héldu Stólunum síðan frá sínu marki og urðu Fótbolta.net bikarmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins. Stórt afrek og frábær kveðjustund fyrir þjálfarann Brynjar Kristmundsson.

Allar upplýsingar um atvik leiksins eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×