Erlent

Fimm ára fangelsi fyrir að taka við fúlgum fjár frá Gaddafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, í dómshúsi í París í morgun.
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, í dómshúsi í París í morgun. AP/Christophe Ena

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur verið sakfelldur fyrir að taka ólöglega við milljónum evra frá Muammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, á árum áður. Peningarnir rötuðu i kosningasjóði Sarkozy fyrir forsetakosningar.

Sarkozy hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi og mun hann þurfa að sitja inni hvort sem hann áfrýjar úrskurðinum eða ekki. Honum hefur einnig verið gert að borga hundrað þúsund evrur í sekt.

Forsetinn fyrrverandi var sakfelldur í dómstól i París í morgun. Hann var dæmdur fyrir að hafa gert samkomulag við Gaddafi árið 2005, þegar Sarkozy var innanríkisráðherra Frakklands, í skiptum fyrir það að styðja hinn einangraða einræðisherra á alþjóðasviðinu.

Sarskozy, sem er nú sjötugur, var forseti Frakklands frá 2007 til 2012.

Hann var hreinsaður af sök í þremur ákæruliðum sem sneru að spillingu, brotum á kosningalögum og fjárdrátt, samkvæmt frétt France24.

Sarkozy heldur því fram að ásakanirnar gegn honum séu pólitískar í eðli sínu og segist saklaus. Talið er að hann muni áfrýja úrskurðinum.

Dæmdur fyrir að þrýsta á vitni

Rannsóknin gegn Sarkozy hófst árið 2013, tveimur árum eftir að Saif al-Islam, sonur Gaddafi sakaði hann um að hafa tekið við milljónum evra frá föður sínum. Í kjölfarið steig Ziad Takieddine, athafnamaður frá Líbanon sem var lengi milliliður milli yfirvalda í Frakklandi og ráðamanna víða í Mið-Austurlöndum, fram og sagðist hafa sannanir fyrir því að Gaddafi hafi fjármagnað forsetaframboð Sarkozy.

Takieddine sagði einnig að greiðslurnar hefðu haldið áfram eftir að Sarkozy varð forseti. Hann lést í Líbanon á þriðjudaginn.

Sarkosy hefur í gegnum árin staðið frammi gegn fjölda lögsókna og ákæra, meðal annars fyrir að þrýsta á Takieddine að breyta sögu sinni, sem athafnamaðurinn gerði tvisvar sinnum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hæstiréttur stað­festir dóm yfir Sar­kozy

Hæstiréttur Frakklands staðfesti í dag þriggja ára fangelsisdóm fyrir forsetanum fyrrverandi, Nicolas Sarkozy. Tvö ár skulu vera skilorðsbundin en hann mun geta afplánað það þriðja með því að bera ökklaband.

Sar­kozy tapar á­frýjun en sleppur við að sitja inni

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur tapað áfrýjun í spillingarmáli sínu. Dómstóllinn hefur þó úrskurðað að hann muni ekki þurfa að afplána fangelsisdóm heldur nægir fyrir hann að afplána heima hjá sér og vera með ökklaband.

Sarkozy dæmdur í eins árs stofufangelsi

Franskur dómstóll dæmdi Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta Frakklands, í eins árs stofufangelsi fyrir brot á lögum um fjármál stjórnmálaframboða þegar hann barðist fyrir endurkjöri árið 2012. Hann fær að afplána refsinguna heima hjá sér undir rafrænu eftirliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×