Handbolti

Marka­hæstur í vetur og nálgast ellefu hundruð mörkin í þýsku deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon er ekki ólíklegur til að verða markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar í annað sinn.
Ómar Ingi Magnússon er ekki ólíklegur til að verða markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar í annað sinn. getty/Ronny Hartmann

Landsliðsmaðurinn í handbolta, Ómar Ingi Magnússon, hefur skorað flest mörk allra á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni. Skotnýting hans er lygilega góð.

Ómar skoraði ellefu mörk þegar Magdeburg gerði jafntefli við Erlangen, 31-31, í fyrradag. Þetta var aðeins annar leikurinn af síðasta 31 í öllum keppnum sem Magdeburg vinnur ekki. Liðið hefur unnið 29 af síðasta 31 leik sínum og gert tvö jafntefli.

Ómar hefur skorað 49 mörk í fyrstu sex leikjum Magdeburg í þýsku deildinni. Hann hefur skorað fjórum mörkum meira en næsti maður á lista, Elías Ellefsen á Skipagötu hjá Kiel.

Skotnýting Ómars er frábær en hann hefur skorað úr 49 af þeim 56 skotum sem hann hefur tekið. Það gerir 87,5 prósenta skotnýtingu sem er einstakt fyrir skyttu.

Af 49 mörkum Ómars hafa 27 komið af vítalínunni. Hann er með flest vítamörk í deildinni, fimm meira en Kai Häfner hjá Stuttgart.

Blær Hinriksson, sem á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku, er í 8. sæti á markalista þýsku deildarinnar með þrjátíu mörk. Viggó Kristjánsson hjá Erlangen er í 16. sæti með 27 mörk en í aðeins fjórum leikjum.

Ómar er á sínu sjötta tímabili með Magdeburg en hann kom til liðsins frá Álaborg 2020. Ómar var markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar tímabilið 2020-21 og valinn besti leikmaður hennar 2021-22. Hann hefur unnið tvo þýska meistaratitla með Magdeburg, Meistaradeild Evrópu í tvígang, Evrópudeildina einu sinni og HM félagsliða þrisvar sinnum.

Ómar hefur leikið 152 leiki í þýsku úrvalsdeildinni og skorað 1.052 mörk, eða 6,9 mörk að meðaltali í leik.

Magdeburg er í 2. sæti þýsku deildarinnar með níu stig, einu stigi á eftir toppliði Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×