Erlent

Selenskí dregur í land

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Selenskí forseti var sakaður um að grafa undan lýðræði í landinu.
Selenskí forseti var sakaður um að grafa undan lýðræði í landinu. Getty

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti tilkynnti í dag að ríkisstjórn hans legði frumvarp fyrir þingið sem gerði embætti sem fást við spillingu í úkraínskum stjórnvöldum óháð framkvæmdarvaldinu á nýjan leik. Hann var sakaður um að grafa undan lýðræði í landinu eftir að frumvarp var keyrt í gegnum þingið á methraða sem kvað á um að setja spillingarrannsóknarembætti undir ríkissaksóknara, sem forseti skipar.

Greint var frá því í gær að Selenskí forseti og ríkisstjórn hans stæði hefðu samþykkt löggjöf sem gerði í raun út af við sjálfstæði embætta sem rannsaka og sækja æðstu embættismenn landsins fyrir spillingu. Var þetta gert undir yfirskini þess að stemma stigu við rússnesk áhrif í stjórnsýslunni en stjórnarandstaðan segir lögin viðbragð við spillingarransóknum á hendur nánustu samstarfsmönnum forsetans.

Úkraínumenn hófu að mótmæla víða um landið og sögðu forsetann gefa spilltum embættismönnum lausan tauminn og aftra aðildarferli Úkraínu að Evrópusambandinu. Evrópskir embættismenn lýstu einnig yfir áhyggjum sínum af frumvarpinu.

Nú virðist hann hafa dregið í land í ljósi óánægju úkraínsku þjóðarinnar. Enn liggur nákvæmt innihald frumvarpsins ekki fyrir og því ekki hægt að fullyrða um að embættin tvö, NABU og sérstakur saksóknari í spillingarmálum, haldi sjálfstæði sínu óbreyttu.

„Það mikilvægasta er að hafa raunveruleg verkfæri, engar rússneskar tengingar og sjálfstæði NABU og sérstaks saksóknara. Frumvarpið verður lagt fyrir þingið í dag,“ sagði hann í dag en Kyiv Independent.

Hann kvað nýja frumvarpinu ætlað að standa vörð um óhæði embætta sem fást við spillingarmál í landinu en spilling hefur verið viðvarandi í Úkraínu frá sjálfstæði þess. Úkraína hefur ár eftir ár verið með spilltustu löndum Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×