Erlent

Sigldi á ís­jaka á fleygi­ferð og komst naum­lega af

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Myndin er úr safni og ekki frá Qasigiannguit.
Myndin er úr safni og ekki frá Qasigiannguit. MYND/GETTY

Ungur maður sigldi á ísjaka á fullum hraðaa út fyrir Qasigiannguit á Grænlandi í síðustu viku. Hann var undir áhrifum áfengis og komst naumlega lífs af.

Grænlenski miðillinn Sermitsiaq greinir frá því að á tíunda tímanum miðvikudaginn síðasta barst lögreglu tilkynning um sjóslys út fyrir Qasigiannguit í Diskóflóa. Maðurinn er 21 árs.

„Til allrar hamingju fyrir sjómanninn gerðist slysið beint fyrir utan bæinn og íbúarnir brugðust skjótt við,“ hefur miðillinn eftir Carl Sværd varðstjóra hjá lögreglunni á Grænlandi.

Viðbragðsaðilar voru snarir í snúningum og tókst að hífa manninn upp úr vatninu. Þá var hann meðvitundarlaus og andaði ekki. Eftir að honum var veitt fyrsta hjálp hóf hann að anda á ný.

Hann kom til meðvitundar á sjúkrahúsinu í Qasigiannguit og þaðan var hann svo fluttur til Nuuk. Varðstjórinn segist ekki geta tjá sig frekar um líðan mannsins að svo stöddu. Afar slæm blanda af áfengi og siglingum hefði getað kostað manninn lífið, segir Carl Sværd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×