Lögreglan á Grænlandi greindi frá því í yfirlýsingu að þeim hafi borist tilkynning á þriðja tímanum í nótt um skothvelli í hverfinu Nuussuaq í Nuuk.
„Tvær ungar konur særðust og hlúð er að sárum þeirra,“ hefur grænlenski miðillinn Sermitsiaq eftir lögreglunni.
Fram kemur einnig í tilkynningunni að lögreglan hafi handtekið fimm manns í tengslum við málið. Vegum var einnig lokað í hverfinu í nótt á meðan vettvangurinn var rannsakaður.
Lögreglan segist ekki munu tjá sig frekar um málið að svo stöddu og því lítið sem liggur ljóst fyrir.