Lystisnekkjan Bayesian sökk rétt fyrir utan hafnarbæinn Porticello á Sikiley í miklum stormi 19. ágúst. Mike Lynch, breskur auðkýfingur og eigandi snekkjunnar, fórst með henni ásamt dóttur sinni og fimm öðrum. Fólkið var á snekkjunni til þess að fagna því að Lynch var sýknaður af fjársvikum í Bandaríkjunum.
Flakið var á um fimmtíu metra dýpi. Björgunarfyrirtækið hífði það upp úr sjónum á laugardag en það tók þrjá daga að komast því af hafsbotninum, að sögn AP-fréttastofunnar. Mastur skipsins, sem er 72 metra hátt, var sagað af og skilið eftir í bili.
Til stóð að flytja flakið til hafnar í Termini Imerese í gær. Þar fá rannsakendur aðgang að því. Sakamálarannsókn stendur yfir á skipsskaðanum á Ítalíu. Yfirvöld gruna skipstjórann um græsku.
Breskir rannsakendur gáfu út skýrslu í síðasta mánuði en niðurstaða þeirra var að veðurofsinn hefði velt snekkjunni á hliðina á innan við fimmtán sekúndum. Stjórnendur snekkjunnar hefðu ákveðið að bíða storminn af sér þar sem hún sökk. Vindhraðinn náði meira en 36 metrum á sekúndu þegar snekkjan sökk.
Fimmtán komust lífs af, þar á meðal skipstjórinn og öll áhöfnin fyrir utan skipskokkinn.