Gagnrýni

KK og Sinfó: Clint Eastwood mætti í Eld­borg

Jónas Sen skrifar
Tónleikarnir fóru fram í Eldborg í Hörpu síðastliðinn föstudag.
Tónleikarnir fóru fram í Eldborg í Hörpu síðastliðinn föstudag. Jónas Sen

Ef íslenska þjóðarsálin væri maður, væri hún líklega gamall sjóari sem syngur tregafull ástarljóð í reykfylltu sjoppukaffi, með bletti á peysu og gleymdar vonir í augunum. Við elskum að finna til og KK hefur veitt þessari hneigð raddbönd og sex strengi.

Með helgimyndaáru sem liggur einhvers staðar á milli alþýðuhetju og trúbadors, syngur hann um allt sem við höfum hingað til reynt að segja með því að stara út í rokið: „Það er eitthvað að... en við ætlum ekki að ræða það nánar.“ Segja má að hann sé þjóðardýrlingur allra sem finnast rigningin vera persónuleg móðgun.

Það er einmitt þar sem snilld KK liggur: í því að segja allt það sem Íslendingar segja ekki, en samt finna — helst á dimmum vetrarkvöldum með skammdegislýsingu í bakgrunni og kerti flöktandi í hálfgerðu vonleysi. Tónlistin hans talar beint til þjóðar sem tortryggir sterkar tilfinningar og trúir ekki á hamingju nema með fyrirvara. Eða þannig.

Blús og þjóðlög

Að öllu gamni slepptu þá einkennist tónlist KK fyrst og fremst af blús og þjóðlögum, en hann hefur einnig fært sig yfir í rokkaðri og jafnvel poppaðri tóna á ferli sínum. Hann er fær gítarleikari og hefur sterka raddbeitingu sem hefur djúpa tilfinningalega dýpt. Tónlist hans er oft melankólísk, en um leið full af von og mannúð. Textarnir fjalla gjarnan um mannlegar tilfinningar, náttúruna, og reynslu lífsins.

KK hefur verið opinskár um áhrifin á tónlist sína, sem spanna allt frá bandarískum blústónlistarmönnum til breskra rokkgoða. Hann hefur tekist að blanda saman þessum áhrifum og skapað sinn eigin, einstaka hljóm sem er í senn alþjóðlegur og rótgróinn í íslenskri menningu.

Jónas Sen

Hvar vorum við eiginlega stödd?

Með þetta í huga var ég fullur eftirvæntingar þegar KK gekk inn í Eldborgarsal Hörpu og til liðs við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Maður hugsaði ósjálfrátt: „Er ég kominn í villta vestrið eða er ég í Vínarborg?“ Svarið var auðvitað bæði, enda átti kvöldið eftir að líða líkt og gæðablanda af hámenningarlegri sinfóníu og afslöppuðum sveitasöng við varðeldinn.

KK minnti á Clint Eastwood í spaghettí-vestra, nema í stað þess að draga upp byssu dró hann fram sitt örugga sex-strengja „skotvopn“ og hóf að syngja „Grand Hotel“. Sinfóníuhljómsveitin studdi við hann og gerði það afburðavel undir öruggri og smekkvísri stjórn Anthony Weeden.

Síðan kom hver perlan á fætur annarri, og maður gleymdi stund og stað. Það er auðvitað klisja, en hún á svo sannarlega við hér. Vandaðar, hófstilltar hljómsveitarútsetningarnar voru ekki belgingslegar eins og svo oft þegar popptónlist er sett í sinfónískan búning. Þvert á móti bjó hljómsveitin til einhvers konar þrívídd um sönginn, landslag sem var bæði vítt og fagurt. Maður var kominn á einhvern allt annan stað en venjulega. Og lögin voru svo falleg að það var ekki hægt að fá nóg af þeim.

Ellen Kristjáns sló í gegn

Nokkrir söngvarar lögðu KK lið og við lá að „litla systir“ hans, Ellen Kristjánsdóttir, stæli senunni. Hún söng fyrst Steiktur engill og það var afar sjarmerandi. Rödd Ellenar var eins og rjómi ofan á kaffibollann, mýkri en silkið í sparisængurfötunum hjá ömmu. Tvíeykið söng með áreynslulausri samheldni sem hefði fengið ABBA til að gráta úr afbrýðisemi.

Mugison var allt annar kapítuli. Villta og óheflaða orkan hans ógnaði fínlegu umgjörðinni – og það var eiginlega frábært. Salurinn elskaði það, en maður gat næstum því heyrt sinfóníuna andvarpa af létti þegar hann gekk út af sviðinu aftur, án þess að hafa skemmt neitt dýrmætt hljóðfæri.

Jón Jónsson var líka skemmtilegt krydd í dagskrána. Maðurinn sem er einhvern veginn hinn fullkomni íslenski poppari, bætti við ferskum andblæ og tryggði að tónleikarnir urðu ekki of alvarlegir.

Jónas Sen

Magnaður kór

Kammerkórinn Aurora, sem samanstendur af ungum og vel þjálfuðum söngkonum undir stjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur var sömuleiðis aðdáunarverður. Þær höfðu yfirbragð grískra gyðja sem höfðu gleymt sér á karaoke-bar í Reykjavík. Óaðfinnanleg frammistaða þeirra bætti hárfínu jafnvægi við tónlistarblönduna sem var nú þegar orðin næstum fullkomlega absúrd en um leið stórkostleg.

KK hélt áhorfendum föngnum með góðum sögum milli laga. Það var eins og hann hefði boðið okkur heim til sín, nema að heimilið var sinfóníusalur með 1.600 gestum og 80 manna hljómsveit í stofunni. Sögurnar hans voru jafnhlægilegar og þær voru hlýjar. Best var auðvitað þegar hann átti að taka lagið í málningarvöruverslun en villtist í kynlífstækjabúðina Blush og fattaði það ekki fyrr en allt of seint!

Þegar tónleikarnir nálguðust lokin var ljóst að þessi furðulega og frábæra blanda hafði virkað. Sinfónían hafði sloppið lifandi frá Mugison, KK hafði stimplað sig inn í menningarheim klassískrar tónlistar án þess að missa kúrekaímyndina, og salurinn hafði upplifað kvöld sem var fyndið, hjartnæmt og alveg sér á parti.

Niðurstaða:

Hámenning og hálfkæringsblús mættust á miðri leið, og eitthvað óvenjulegt varð til. KK og Sinfónían féllust í faðma – hann með sína þjóðlegu lýrík, og tregafulla en þó hlýja nærveru, og hún með smekkvísi og dýpt. Útkoman var ekki bara vel heppnuð – hún var mögnuð. Þetta voru ekki einungis tónleikar; þetta var þjóðarspegill, þar sem fyndni og fegurð, einsemd og samkennd, nutu sín allt í senn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.