Enski boltinn

Sunderland vann milljónaleikinn og komst upp í úrvalsdeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tom Watson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma skoraði hann markið sem tryggði Sunderland sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir átta ára fjarveru.
Tom Watson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma skoraði hann markið sem tryggði Sunderland sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir átta ára fjarveru. getty/Mike Hewitt

Tom Watson skoraði sigurmark Sunderland gegn Sheffield United í uppbótartíma í úrslitaleik umspils um sæti í ensku úrvalsdeildinni á Wembley í dag.

Sunderland lék síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2016-17 en féll svo niður um tvær deildir á tveimur árum. Liðið var fjögur ár í C-deildinni en vann sér sæti í B-deildinni 2022 og hefur leikið þar undanfarin þrjú tímabil.

Sunderland lenti í 4. sæti B-deildarinnar og sló Coventry City út í undanúrslitum umspilsins á dramatískan hátt, 3-2 samanlagt. Á meðan vann Sheffield United Bristol City örugglega, 6-0 samanlagt.

Klippa: Mörkin úr milljónaleik Sunderland og Sheffield United

Sheffield United náði forystunni í úrslitaleiknum í dag á 25. mínútu. Eftir snarpa skyndisókn og frábæra sendingu frá Gus Hamer lyfti Tyrese Campbell boltanum yfir Anthony Patterson, markvörð Sunderland.

Eliezer Mayenda jafnaði fyrir Sunderland með skoti upp í þaknetið á 76. mínútu og þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Watson sigurmark Svörtu kattanna með hárnákvæmu skoti fyrir utan vítateig.

Hinn nítján ára Watson lék væntanlega sinn síðasta leik fyrir Sunderland í dag en hann hefur samið við Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×