Fylgst var með öllu því helsta sem gerðist í beinni textalýsingu á Vísi en hana má finna neðst í fréttinni. Hér fyrir neðan má svo nálgast textalýsingu frá hverjum og einum leik.
Lokaumferðin
- Fulham 0-2 Man. City
- Liverpool 1-1 Crystal Palace
- Man. Utd 2-0 Aston Villa
- Newcastle 0-1 Everton
- Nott. Forest 0-1 Chelsea
- Southampton 1-2 Arsenal
- Tottenham 1-4 Brighton
- Wolves 1-1 Brentford
- Ipswich 1-3 West Ham
- Bournemouth 2-0 Leicester
Manchester City hélt 3. sætinu með 0-2 sigri á Fulham á Craven Cottage. Ilkay Gündogan og Erling Haaland (víti) skoruðu mörk City sem vann sjö af síðustu níu deildarleikjum sínum og gerði tvö jafntefli.

Chelsea lyfti sér upp í 4. sætið með 0-1 sigri á Nottingham Forest á City Ground. Levi Colwill skoraði eina mark leiksins í upphafi seinni hálfleiks. Forest varð að gera sér 7. sætið að góðu en liðið spilar í Sambandsdeildinni á næsta tímabili.
Eftir að hafa tapað úrslitaleik Evrópudeildarinnar fyrir Tottenham á miðvikudaginn, 1-0, spilaði Manchester United vel gegn Aston Villa. Emiliano Martínez, markvörður gestanna, var rekinn út af undir lok fyrri hálfleiks en á 73. mínútu var mark dæmt af Morgan Rogers sem þótti afar hæpinn dómur.
United tryggði sér sigurinn með mörkum Amads Diallo og Christians Eriksen (víti). Villa komst því ekki í Meistaradeildina annað árið í röð en liðinu hefði dugað jafntefli á Old Trafford því á sama tíma tapaði Newcastle United fyrir Everton á St James' Park, 0-1. Carlos Alcaraz skoraði eina mark leiksins a 65. mínútu. Newcastle endaði í 5. sæti og endurheimti því sæti sitt í Meistaradeildinni.

Englandsmeistarar Liverpool og bikarmeistarar Crystal Palace gerðu 1-1 jafntefli á Anfield. Ismaïla Sarr kom Palace yfir en Mohamed Salah jafnaði fyrir Liverpool með sínu 29. deildarmarki á tímabilinu.
Nýkrýndir Evrópudeildarmeistarar Tottenham náðu forystunni gegn Brighton með marki Dominics Solanke úr víti en töpuðu 1-4. Spurs endaði í 17. sæti sem er versti árangur liðsins síðan liðið féll úr efstu deild tímabilið 1976-77. Jack Hinselwood skoraði tvö mörk fyrir Brighton og Matt O'Riley (víti) og Diego Gómez sitt markið hvor. Mávarnir enduðu í 8. sæti.

Arsenal sigraði botnlið Southampton á útivelli, 1-2. Kieran Tierney og Martin Ødegaard skoruðu mörk Arsenal sem endaði í 2. sæti. Ross Stewart skoraði mark Southampton sem fékk aðeins tólf stig.
Antonio Semenyo skoraði bæði mörk Bournemouth í 2-0 sigri á Leicester City. Kirsuberin enduðu í 9. sæti en Refirnir féllu.
West Ham United sigraði Ipswich Town, 1-3. James Ward-Prowse, Jarrod Bowen og Mohammed Kudus skoruðu mörk Hamranna en Nathan Broadhead mark nýliðanna sem féllu.
Þá gerðu Wolves og Brentford 1-1 jafntefli. Bryan Mbeumo kom Býflugunum yfir með sínu tuttugasta deildarmarki á tímabilinu en Marshall Munetsi jafnaði fyrir Úlfana.
Lokastaðan
