Handbolti

„Væri al­veg til í að hafa þá sem tengda­syni“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rúnar Kárason sækir að marki Vals í leik kvöldsins.
Rúnar Kárason sækir að marki Vals í leik kvöldsins.

Rúnar Kárason varð Íslandsmeistari í handbolta í þriðja sinn í kvöld er Fram vann eins marks sigur gegn Val í úrslitum Olís-deildar karla, 27-28.

„Þetta er svona á pari við þegar ég varð meistari með ÍBV, en samt allt öðruvísi,“ sagði Rúnar í samtali við Vísi í leikslok.

„Það er erfitt að bera þetta saman. Þetta er eins og börnin manns. Bara ógeðslega gaman og ógeðslega mikið unnið fyrir þessu. Það er bara ógeðslega gaman að sjá stemninguna sem er komin í Fram-hverfið í Úlfarsárdal. Að við getum verðlaunað fólkið með þessu er bara geggjað.“

Þá nýtti Rúnar einnig tækifærið og hrósaði liðsfélögum sínum, sem hann hefur sjálfur oft talað um að séu eins og börnin hans, eins og titlarnir.

„Þessir gæjar eru bara sigurvegarar. Þeir eru búnir að vinna allt í yngri flokkunum og þeir þurftu bara aðeins að aðlagast meistaraflokki og halda síðan bara uppteknum hætti. Þetta eru gæjar sem eru búnir að vinna titla á hverju ári frá því að þeir voru tíu ára pollar og þeir lögðu á sig það sem þeir þurftu til að geta haldið áfram í meistaraflokki. Þetta eru ógeðslega flottir gæjar. Ógeðslega duglegir, faglegir og móttækilegir fyrir leiðbeiningum og krítík og eru tilbúnir að leggja geðveikt á sig. Ég væri alveg til í að hafa þá sem tengdasyni þegar að því kemur.“

„Það er sannur heiður að fá að upplifa þetta með þeim. Það eru þeir sem græja þetta. Ég er bara einhver svona stuðningsfulltrúi finnst mér. Þetta er bara ógeðslgea gaman.“

Að lokum segist Rúnar ætla að halda áfram á næsta tímabili, þrátt fyrir að verða 37 ára gamall um helgina.

„Ég ætla að halda eitthvað áfram. En þegar maður er kominn á þennan aldur er þetta bara eitt ár í einu. Mér líður vel. Það er að verða kominn júní og ég er enn að spila,“ sagði Rúnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×