Viðskipti innlent

Spá ó­breyttum stýri­vöxtum

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum við næstu vaxtaákvörðun sem kynnt verður á miðvikudaginn í næstu viku. Talsverðar líkur séu þó einnig á smáu vaxtalækkunarskrefi. Stýrivextirnir standa nú í 7,75 prósentum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Íslandsbanka. Þar segir að þrálátur verðbólguþrýstingur, háar verðbólguvæntingar og merki um seiglu í innlendri eftirspurn muni trúlega vega þyngra en vísbendingar um minnkandi spennu á vinnumarkaði og fasteignamarkaði. Geri bankinn að ráð fyrir að vaxtalækkunarferlinu verði haldið áfram á seinni hluta ársins og að það standi fram undir lok næsta árs.

„Óhagstæðari þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga undanfarið en nefndin vonaðist til ásamt merkjum um áframhaldandi seiglu í eftirspurn þrátt fyrir háa raunvexti vegur þar trúlega þyngra en hjaðnandi húsnæðisverðbólga og merki um minnkandi spennu á vinnumarkaði. Þó eru einnig talsverðar líkur á því að 0,25 prósentu vaxtalækkunarskref verði stigið í næstu viku 21. maí. 

Stærra vaxtalækkunarskref teljum við hins vegar afar ólíklegt enda væri nefndin með því að breyta verulega frá þeirri varfærnu stefnu sem hún hefur markað undanfarið í stjórnun peningamála,“ segir á vef Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×