Fram hefur gert þriggja ára samning við Katrínu Önnu Ásmundsdóttur sem kemur til félagsins frá Gróttu.
Katrín Anna er tvítug en hefur líkt og Þórey Rósa, þó í mun skemmri tíma, verið í íslenska landsliðinu.
Hún skoraði 57 mörk í 21 leik fyrir Gróttu á nýafstöðnu tímabili en Grótta hafnaði í neðsta sæti, aðeins tveimur stigum frá næsta örugga sæti, og féll niður um deild. Fyrir ári síðan endaði Katrín Anna markahæst hjá Gróttu með 83 mörk í 17 leikjum þegar liðið vann sig upp úr Grill 66-deildinni.
Þórey Rósa var þriðja markahæst hjá Fram í Olís-deildinni í vetur með 90 mörk í 21 leik. Framkonur enduðu í 2. sæti deildarinnar en féllu svo úr leik gegn Haukum í undanúrslitum með tapi á mánudaginn. Þórey Rósa hafði, líkt og Steinunn Björnsdóttir, ákveðið að þetta yrði hennar síðasta keppnistímabil og eru skórnir því komnir á hilluna.