Erlent

Til marks um „skringilega“ skautun víða um heim

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur Vilhelm/AP

Prófessor í stjórnmálafræði segir sögulegan sigur Umbótaflokksins í sveitarstjórnarkosningum í Englandi vekja upp spurningar hvort flokkurinn gæti steypt Íhaldsflokknum af stalli. Sigurinn sé í takt við „skringilega“ skautun víða um heim.

Umbótaflokkur Nigel Farage vann stórsigur í sveitastjórnarkosningum í Englandi á fimmtudaginn á meðan að Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn biðu afhroð og hlutu aðeins 35 prósenta atkvæða samanlagt sem er sögulega lágt.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur ræddi þennan tímamótasigur Umbótaflokksins eða Reform UK í Sprengisandi í morgun og sagði til að mynda sigurinn merki um uppstokkun í pólitísku landslagi hins vestræna heims.

„Engu að síður þá er sigurinn það mikill að margir eru farnir að velta því fyrir sér hvort Reform geti hreinlega tekið við stöðu Íhaldsflokksins, annar tveggja megin flokka í breskum stjórnmálum. Það sé hugsanlega í spilunum að Íhaldsflokkurinn bara fari niður í aðra deild breskra stjórnmála.“

Síðast hafi slíkur atburður átt sér stað í sögu Bretlands árið 1922 þegar að Verkamannaflokkurinn steypti Frjálslyndaflokknum af stalli. Eiríkur minnir þó á að Farage hafi áður lýst yfir því að flokkur sinn myndi taka við Íhaldsflokknum en ári síðar vann Íhaldsflokkurinn stórsigur. Framganga Farage og félaga sé merki um nýja tegund skautun víða um heim.

„Stjórnmál í Evrópu hafa verið háð innan hefðbundinna marka, þess hægris og þess vinstris sem við höfum vanist. Það sem við getum kallað hófstillt pólitík. Núna eru að koma miklu harðari öfl upp, sérstaklega í Evrópu, hægra megin.“

Hann nefnir sem dæmi stöðuna í Ungverjalandi, Þjóðfylkinguna í Frakklandi og Valkostur fyrir Þýskaland (AfD).

„Svo gerist það á móti að sósíaldemókratísk öfl eru að vaxa gríðarlega annars staðar. Þetta er partur af þessari skringilegu skautun sem er ekki á milli hins hefðbundna hægri og vinstri heldur á milli íhaldssemi og frjálslyndis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×