Enski boltinn

Vonir Plymouth glæðast og Leeds á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar í Plymouth Argyle eiga enn ágæta möguleika á að bjarga sér frá falli.
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar í Plymouth Argyle eiga enn ágæta möguleika á að bjarga sér frá falli. getty/Alex Pantling

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn fyrir Plymouth Argyle sem sigraði Sheffield United, 2-1, í ensku B-deildinni í dag.

Plymouth er enn í neðsta sæti deildarinnar en nú með fjörutíu stig, aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti. Guðlaugur og félagar eiga eftir að spila fjóra leiki.

Sheffield United var yfir í hálfleik eftir mark Jesurans Rak-Sakyi á 44. mínútu. Ryan Hardie jafnaði fyrir Plymouth á 81. mínútum og tveimur mínútum fyrir leikslok skoraði Muhamed Tijani sigurmark liðsins.

Leeds United skaust á topp deildarinnar með 2-1 sigri á Preston á Elland Road. Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Preston.

Öll mörkin komu á fyrstu þrettán mínútum leiksins. Manor Solomon kom Leeds yfir á 4. mínútu en Kaine Kesler-Hayden jafnaði tveimur mínútum síðar. Á 13. mínútu kom Jayden Bogle heimamönnum svo í 2-1 og þar við sat.

Leeds er með 88 stig á toppi deildarinnar, jafn mörg og Burnley en betri markatölu. Sheffield United er svo í 3. sætinu með 83 stig. Tvö efstu liðin fara beint upp í ensku úrvalsdeildina en liðin í sætum 3-6 í umspil.

Preston, sem hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu fjórum leikjum, er í 16. sæti deildarinnar með 49 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×