Handbolti

Úrslitakeppnin klár í Olís deild kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir og félagar í Fram unnu sinn tíunda deildarsigur í röð í kvöld.
Steinunn Björnsdóttir og félagar í Fram unnu sinn tíunda deildarsigur í röð í kvöld. Vísir/Vilhelm

Valur, Haukar, Fram og ÍR fögnuðu sigri í leikjum lokaumferðar Olís deildar kvenna í handbolta í kvöld en eftir hana er ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni og að Grótta er fallið úr deildinni.

Valur og Fram enduðu í tveimur efstu sætum deildarinnar og sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninni. Haukar mæta þar ÍBV og Selfoss spilar við ÍR.

Valskonur fengu deildarmeistaratitilinn afhentan eftir ellefu marka sigur á Stjörnunni, 34-23. Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði tíu mörk fyrir Val í kvöld og Lilja Ágústsdóttir var með sex mörk. Hafdís Renötudóttir varði 17 skot og 53 prósent skotanna sem á hana komu. Embla Steindórsdóttir var langmarkahæst hjá Stjörnunni með tíu mörk.

Framkonur unnu sex marka sigur á Selfossi, 34-28. Steinunn Björnsdóttir skoraði 10 mörk fyrir Fram og Harpa María Friðgeirsdóttir var með sjö mörk. Katla María Magnúsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Selfoss. Framliðið hefur unnið tíu deildarleiki í röð.

Haukakonur lentu í kröppum dansi í Vestmannaeyjum en unnu á endanum eins marks sigur, 25-24. ÍBV var þremur mörkum yfir, 19-16, þegar sextán mínútur voru eftir. Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði átta mörk fyrir Hauka og Birta Lind Jóhannsdóttir var með fimm mörk. Birna Berg Haraldsdóttir skoraði þrettán mörk fyrir ÍBV en það dugði ekki til.

ÍBV-liðið fer engu að síður í úrslitakeppnina með því að ná þriðja neðsta sætinu. Grótta endaði neðst eftir 31-26 tap á móti ÍR og Stjarnan fer í umspil um að halda sæti sínu í deildinni.

  • Úrslitakeppnin í Olís deild kvenna 2025:
  • Valur og Fram sitja hjá
  • Haukar-ÍBV
  • Selfoss-ÍR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×