Þann 1. mars tók Palace á móti Millwall í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Heimamenn unnu leikinn, 3-1, en brot Roberts á Mateta var helsta umræðuefnið eftir hann.
Snemma leiks sparkaði Roberts í andlit Matetas og var rekinn af velli, þó ekki fyrr en VAR-dómarinn blandaði sér í málið.
Sauma þurfti 25 spor í vinstra eyra Matetas og hann hefur ekki spilað frá leiknum í byrjun mánaðarins. Mateta ber þó engan kala til Roberts.
„Liam sendi mér skilaboð meðan ég var á spítalanum og ég sagði honum að þetta væri í lagi, þetta væri fótbolti. Hann baðst afsökunar. Hann var áhyggjufullur,“ sagði Mateta.
Roberts fékk sex leikja bann fyrir brotið á Mateta. Franski framherjinn segir að illur ásetningur hafi þó ekki búið að baki brotinu.
„Ég held að hann hafi ekki vaknað og hugsað: Ég vil taka hausinn af JP. Það er mikil pressa. Hann vildi gera vel en of miklar tilfinningar geta látið þig gera klikkaða hluti. Þetta voru bara mistök. Þú lærir af þessu,“ sagði Mateta sem þarf að spila með grímu, allavega fyrst um sinn, þegar hann snýr aftur á völlinn.
Næsti leikur Palace er gegn Fulham í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar 29. mars.