Pochettino tók við Tottenham 2014 og stýrði liðinu í fimm ár. Undir stjórn Argentínumannsins komst Spurs meðal annars í úrslit Meistaradeildar Evrópu vorið 2019. Eftir það hallaði undan fæti og Pochettino var rekinn í nóvember sama ár.
Þrátt fyrir að Levy hafi látið hann fara ber Pochettino engan kala til hans. Þvert á móti. Þeir eru nefnilega enn í sambandi.
„Þú ert að tala um tvær ólíkar hliðar, faglega og persónulega og ég hef alltaf greint þar á milli. Hann er alltaf þarna og verður þarna. Það er annað að taka faglegar ákvarðanir. Það er satt að þetta var erfitt eftir nokkur ár saman, út af öllum hæðunum og lægðunum og tilfinningunum sem við upplifðum,“ sagði Pochettino við Sky Sports.
„Ég hef alltaf séð hlutina í fótboltanum þannig að svona lagað hafi ekki áhrif á samband ykkar. Við skildum í góðu. Eitt er það faglega og annað persónulega og núna, eins og daginn eftir að við yfirgáfum Tottenham, höfum við haldið góðu sambandi.“
Pochettino, sem tók við bandaríska landsliðinu á síðasta ári, langar að snúa aftur til Spurs einn daginn.
„Ég man alltaf eftir einu viðtali eftir að ég yfirgaf félagið að ég sagðist vilja koma aftur til Tottenham. Ég er í Bandaríkjunum og er ekki að fara að gera það, ég ætla ekki að tala um það, en eins og ég sagði fyrir 5-6 árum líður mér enn þannig í hjarta mér að ég myndi vilja snúa aftur,“ sagði Pochettino.