Skjálfti 4,6 að stærð varð um klukkan átta í gærkvöldi milli eyjanna Santorini og Amorgos. Annar skjálfti, 4,2 að stærð varð svo um tveimur tímum síðar. Stærsti skjálftinn í hrinunni varð á miðvikudag og mældist sá 5,2 að stærð.
BBC segir frá því að um 11 þúsund íbúar á Santorini hafi flúið eyjuna og hafa þeir sem eftir eru nú tekið upp skipulagðar eftirlitsferðir að næturlagi af ótta við að þjófagengi láti til skarar skríða.

Jarðskjálftafræðingar segja erfitt að segja til um hvenær skjálftahrinunni ljúki. Enn sem komið er hafa engir slasast í skjálftunum og þá hefur ekki verið tilkynnt um neina meiriháttar eyðileggingu.
Yfirvöld á Grikklandi hafa búið sig undir að enn stærri skjálfti kunni að ríða yfir og þá hefur verið varað við aurskriðum. Þá óttast margir að flóðbylgja kunni að skella á eyjunni og hefur bráðabirgðavarnargörðum verið komið upp á Monolithos-ströndinni þar sem fjöldi bygginga standa nálægt ströndinni.
Neyðarástand mun vera í gildi á eyjunni til að minnsta kosti 3. mars næstkomandi.