„Hið litla norræna land hefur að miklu leyti náð sér á strik eftir djúpa efnahagskreppu þökk sé gengislækkun gjaldmiðils þess og miklum viðskiptaafgangi. Viðsnúningur sem var að hluta til mögulegur vegna fjarlægðar landsins frá evrusvæðinu.“ Mögulega gæti einhver haldið að þessi texti kæmi úr skrifum einhvers andstæðings inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar. Svo er þó ekki heldur er um að ræða texta úr greiningu sem unnin var fyrir þing sambandsins af embættismönnum á vegum þess í marz 2014. Þeir hefðu eðli málsins samkvæmt engan hag af því að benda á þetta ef það væri ekki rétt.
Talsvert hefur verið rætt um það hvort krónan hafi bjargað Íslandi í kjölfar falls stóru viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 með því að gera landinu fært að aðlagast breyttum efnahagslegum aðstæðum og ná sér í kjölfarið fljótt á strik á ný. Talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið hafa alfarið hafnað þessu án þess þó að færa haldbær rök fyrir þeirri afstöðu á sama tíma og ófáir fræðimenn hafa tekið undir þetta. Hið sama á ljóslega við um sérfræðinga sambandsins sjálfs samanber orðalagið í greiningunni fyrir þing þess. Íslandi varð það einfaldlega til blessunar að vera ekki með evruna.
Mögulega gæti einhver haldið að þessi texti kæmi úr skrifum einhvers andstæðings inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar.
Fleira áhugavert má finna í greiningunni. Þar segir til dæmis einnig að í samanburði við Evrópusambandið eigi lítil hagkerfi með takmarkaðan iðnað og færri hagsmuni sem þurfi að verja auðveldara með að landa fríverzlunarsamningnum við stærri viðskiptaríki. Tilefnið var fríverzlunarsamningur Íslands við Kína sem undirritaður var 2013 og nær til 1,4 milljarða manna en sambandið hefur ekki enn landað slíkum samningi. Þá segir að þess utan hafi Íslandi samið um fríverzlun í gegnum aðildina að EFTA við 33 ríki utan Evrópusambandsins með samanlagðan íbúafjölda upp á um 440 milljónir manna.
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.