Sæstrengurinn í Eystrasalti sem liggur á milli Finnlands og Eistlands bilaði á jóladagskvöld. Snemma kom upp grunur á að um skemmdarverk væri að ræða.
Olíuflutningaskipið Eagle S, sem er hluti af svokölluðum rússneskum „skuggaflota“ sigldi þá óvenju hægt fram hjá strengnum þegar atvikið átti sér stað. Skipið var á leið frá Sankti Pétursborg til Egyptalands.
Finnsk yfirvöld grunar að olíuskipið hafi eitthvað að gera með bilunina. Þá fannst löng slóð á hafsbotni.
Slóðin er tuga kílómetra löng og gefa vísbendingar til kynna að hún sé eftir akkeri Eagle S sem hafi verið dregið eftir hafsbotninum. Slóðin endaði þar sem skipverjar Eagle S drógu upp akkerið. Finnski ríkismiðillinn Yle greinir frá.
„Slóðin endaði þar sem skipið dró upp akkerið. Og frá þeim punkti er slóð í austurátt sem heldur áfram í nokkuð tugi kílómetra, og gæti jafnvel verið nálægt hundrað kílómetrum,“ sagði Sami Paila sem er yfir rannsókninni í samtali við Yle.
Finnska rannsóknarstofnun ríkisins er nú um borð skipsins þar sem þeir framkvæma rannsókn. Eagle S er innan landhelgi Finna og er í gildi flugbann í þriggja kílómetra radíus frá skipinu. Slæmt veður var í Finnlandi í gær og því þurfti að fresta rannsókninni.
Rannsakendur notuðu kafbáta og neðansjávarmyndavélar til að skoða hafsbotninn.