Schumacher hefur ekki sést opinberlega síðan hann lenti í alvarlegu skíðaslysi fyrir rúmum áratug. Í síðasta mánuði bárust hins vegar fréttir af því að sjöfaldi heimsmeistarinn hefði verið viðstaddur brúðkaup dóttur sinnar, Ginu-Mariu, og Iains Bethke á Mallorca.
Herbert segir að þetta sé ekki satt og Schumacher hafi ekki verið í brúðkaupinu.
„Þetta verður alltaf lokað. Síðasti orðrómurinn var að hann hefði mætt í brúðkaup dóttur sinnar. Eftir því sem ég kemst næst eru þetta falsfréttir og ekkert sannleikskorn í þeim,“ sagði Herbert.
Bretinn keppti í Formúlu 1 á árunum 1989-2000 og vann þrjár keppnir á þeim tíma. Hann varð fjórði í keppni ökuþóra 1995 en Schumacher, sem var einmitt samherji hans hjá Benetton, stóð þá uppi sem sigurvegari.
Herbert, sem er sextugur, ók einnig fyrir Tyrrell, Lotus, Ligier, Sauber, Stewart og Jaguar. Hann var seinna álitsgjafi hjá Sky Sports um Formúlu 1.