Það hefur ekki gengið vel hjá þessu unga Gróttuliði síðustu mánuði en sigur sem þessi gæti breytt miklu fyrir framhaldið.
Gróttuliðið var fyrir leikinn búið að tapa fimm leikjum í röð og hafði aðeins unnið einn af fyrstu sjö leikjum sínum.
Síðasti sigurleikur Gróttu í deildinni kom á Selfossi 13. september eða fyrir 57 dögum síðan. Liðið nýtur sín greinilega samt í ferðum á Suðurlandið þar sem báðir sigurleikir liðsins hafa komið á þessu tímabili.
Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Gróttu, Karlotta Óskarsdóttir var með sex mörk og landsliðskonan Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði fjögur mörk. Anna Karólína Ingadóttir varði líka vel í markinu, alls fjórtán skot eða 45 prósent skota sem komu á hana samkvæmt tölfræði HBStatz.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði mest fyrir ÍBV eða sjö mörk en engin önnur var með meira en tvö mörk.
Ferð Gróttu út í Eyjar seinkaði og leikurinn hófst því klukkutíma síðar en áætlað var. Gestirnir létu það ekki trufla sig, náðu mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 16-13.
Margir bjuggust við svari hjá Eyjakonum í seinni hálfleiknum en raunin varð allt önnur.
Gróttukonur komust á mikið flug og voru komnar níu mörkum yfir, 25-16, þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það voru úrslitin ráðin.
Eyjakonur eru að gefa eftir en þetta var þriðja deildartap liðsins í röð. Liðið hefur aðeins unnið tvo af átta leikjum sínum í vetur.