Handbolti

Aron orðinn leik­maður Veszprém á ný

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson mætti heim í Kaplakrika til að vinna titla og það gekk vel.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson mætti heim í Kaplakrika til að vinna titla og það gekk vel. vísir/Diego

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, er genginn til liðs við ungverska stórveldið Veszprém og hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir FH á þessu tímabili.

Þetta staðfestir handknattleiksdeild FH í fréttatilkynningu í dag en fyrstu fréttir af vistaskiptum Arons bárust síðastliðinn fimmtudag.

Á vef Veszprém kemur fram að samningur Arons gildi fram á sumarið 2026.

Aron, sem er 34 ára gamall, kvaddi Veszprém með frekar stormasömum hætti árið 2017, þegar hann gekk í raðir Barcelona eftir tvö ár í Ungverjalandi. Félagið ásakaði Aron um óheiðarleika og hótaði að fara í mál við hann en Aron frábað sér þann málflutning. 

Hjá Veszprém hittir Aron fyrir vin sinn úr íslenska landsliðinu, Bjarka Má Elísson, og mun leika á ný undir stjórn Xavier Pascual sem þjálfaði hann hjá Barcelona.

Sjálfur segist Aron, í myndbandskveðju sem Veszprém birtir, eiga óklárað verk fyrir höndum hjá Veszprém: „Núna hefur félagið gefið mér tækifæri til þess. Ég hef gríðarlegan metnað og geri allt til að ná þeim markmiðum sem fyrir okkur liggja. Ég geri mitt besta. Áfram Veszprém!“

Aron kveður FH eftir að hafa orðið bæði deildar- og Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu, en hann kom aftur í Hafnarfjörðinn fyrir síðustu leiktíð. Í fréttatilkynningu FH segir að Aron hafi einnig gegið mikið af sér til yngri iðkenda FH og til starfs félagsins í heild, og er honum þakkað kærlega fyrir gott samstarf, vináttu og fagmennsku, og þess getið að félagið hlakki til að fá hann aftur heim síðar.

Aron sendir sjálfur frá sér kveðju sem er svohljóðandi:

Kæru FH-ingar,

Eftir ógleymanlegt ár með félaginu hef ég tekið þá ákvörðun að ganga til liðs við Veszprém í Ungverjalandi og mun ekki taka frekari þátt með FH á þessu tímabili.

Þegar ég gekk til liðs við FH í fyrra hafði ég eitt aðalmarkmið í huga – að verða Íslandsmeistari. Við náðum því markmiði saman, og ég er ólýsanlega stoltur af því afreki.

Ferðalagið hefur verið fullt af áskorunum, sigrum og ógleymanlegum minningum. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir ómetanlegan stuðning. Þetta er árangur sem við náðum saman, og það skiptir mig miklu máli.

Þrátt fyrir að ég sé að yfirgefa félagið núna mun ég alltaf líta á Kaplakrika sem mitt annað heimili. Ég vil þakka leikmönnum, þjálfurum, stjórninni, sjálfboðaliðum og öllum stuðningsmönnum FH fyrir ykkar ómældu vinnu og stuðning. Við erum öll ríkjandi Íslandsmeistarar og FH mun halda áfram að vera það stórveldi í íslenskum handbolta sem það hefur alltaf verið.

Ég er líka sérstaklega þakklátur fjölskyldu minni og mínum allra nánustu fyrir að styðja mig heilshugar í þessari ákvörðun. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt.

Ég á enn óklárað verkefni hjá Veszprém, og ég er spenntur fyrir að fá tækifæri til að klára það. Ég fæ gæsahúð við tilhugsunina um að spila aftur fyrir framan stuðningsmenn Veszprém en minningarnar úr Kaplakrika síðan í vor munu líka ylja mér í vetur.

Bless í bili - og áfram FH!

Aron Pálmarsson

FH-ingur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×