Erlent

Fjórir létust og sjö særðust al­var­lega í á­rás á ísraelska her­stöð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eyðilegging blasir við þar sem áður var moska og verslanir í bænum Nabatiyeh í suðurhluta Líbanon.
Eyðilegging blasir við þar sem áður var moska og verslanir í bænum Nabatiyeh í suðurhluta Líbanon. AP/Mohammed Zaatari

Fjórir hermenn Ísraelshers létust og sjö særðust alvarlega í drónaárás Hezbollah á herstöð nærri Binyamina í gær. Um var að ræða hefndarárás vegna árása Ísraels á Beirút á fimmtudag, þar sem 22 létu lífið.

Um það bil 60 til viðbótar særðust í árás Hezbollah.

Greint var frá því um helgina að Bandaríkjamenn hyggjst senda Thaad-loftvarnakerfi til Ísrael og með munu fylgja um það bil 100 hermenn. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir um að ræða „aðlögun“ Bandaríkjamanna að breyttu ástandi, sem væri ætlað að vernda Ísrael og bandaríska hermenn gegn árásum frá Íran og hópum sem njóta stuðnings Íran.

Abbas Araqchi, utanríkisráðherra Íran, varaði við því í gær að Bandaríkjamenn væru að stofna hermönnum sínum í hættu með því að senda þá til að stjórna loftvarnakerfum í Ísrael. Araqchi sagði Írani hafa gert mikið til að koma í veg fyrir allsherjarstríð á svæðinu en það yrði engin rauð lína dregin þegar kæmir að því að verja írönsku þjóðina eða hagsmuni hennar.

Hezbollah hefur hótað frekari árásum á Ísrael ef Ísraelsher hverfur ekki frá Líbanon.

Ísraelsk stjórnvöld eru nú komin í deilur við Sameinuðu þjóðirnar vegna friðargæsluliða í Líbanon en Benjamin Netanyahu forsætisráðherra hefur sagt að á meðan allt verði gert til að koma í veg fyrir mannfall meðal þeirra þá ættu SÞ að draga starfsfólk sitt frá starfsvæðum Hezbollah á meðan aðgerðum stendur.

Að gera það ekki væri að sjá Hezbollah fyrir „mannlegum skjöldum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×