Handbolti

Aronslausir FH-ingar unnu nýliðana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úr leik FH frá síðustu leiktíð.
Úr leik FH frá síðustu leiktíð. vísir/Diego

Íslandsmeistarar FH unnu nokkuð þægilegan sigur á Fjölni þegar liðin mættust í Kaplakrika í Olís-deildinni í kvöld.

Aron Pálmarsson var ekki í leikmannahópi FH í dag en hann á við meiðsli að stríða og þá var Ásbjörn Friðriksson ekki heldur með. Hins vegar var Ólafur Gústafsson mættur til leiks hjá Hafnfirðingum eftir meiðsli að undanförnu.

Fjölnir er nýliði í Olís-deildinni og því var búist við sigri FH sem vann Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð. Þeir voru með frumkvæðið í fyrri hálfleiknum en Fjölnismenn þó aldrei langt undan. Munurinn varð mestur þrjú mörk en staðan í hálfleik var 12-10 fyrir FH.

Heimamenn settu hins vegar í næsta gír í upphafi síðari hálfleiks. Þeir komust í 18-12 eftir tíu mínútna leik og eftir það var nokkuð ljóst hvar sigurinn myndi enda. 

FH vann að lokum sjö marka sigur, lokatölur 25-18. Jón Bjarni Ólafsson og Símon Michael Guðjónsson voru markahæstir hjá FH í dag með fimm mörk og þá var Daníel Freyr Andrésson frábær í markinu og varði 16 skot eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig.

Hjá Fjölni var Haraldur Björn Hjörleifsson markahæstur með fimm mörk og Bergur Bjartmarsson var öflugur í markinu með 37% vörslu.

FH tyllir sér á topp Olís-deildarinnar með sigrinum og er með níu stig en hefur leikið einum leik fleira en flest lið deildarinnar. Fjölnir er í 9. sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×