Erlent

Dæmdur fyrir barnaníðsefni en sleppur við fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Huw Edwards fyrir utan dómshús í morgun, þar sem hann var dæmdur í skilborðsbundið fangelsi vegna vörslu barnaníðsefnis.
Huw Edwards fyrir utan dómshús í morgun, þar sem hann var dæmdur í skilborðsbundið fangelsi vegna vörslu barnaníðsefnis. EPA/TOLGA AKMEN

Sjónvarpsmaðurinn Huw Edwards, 63 ára, var í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir vörslu barnakláms. Edwards, sem starfaði hjá breska ríkisútvarpinu (BBC), játaði brot sín eftir að hann fékk senda 41 mynd og myndband frá dæmdum barnaníðing.

Edwards greiddi manninum allt að fimmtán hundruð pund fyrir myndirnar frá desember 2020 til ágúst 2021. Sjö af ljósmyndunum eru flokkaðar sem sérstaklega alvarlegar. Flest börnin á myndunum voru þrettán til fimmtán ára gömul en eitt þeirra var talið sjö til níu ára.

Dómarinn í málinu sagði við dómsuppkvaðningu í morgun að þó brot Edwards hefði verið alvarlegt benti ekkert til þess að hann ógnaði börnum á nokkurn hátt. Þá gerði hann sjónvarpsmanninum að sækja meðferð og verða skráður á lista kynferðisbrotamanna, samkvæmt frétt Sky News.

Edwards starfaði hjá BBC í fjóra áratugi en við réttarhöldin kom fram að hann hefði lengi glímt við kynhneigð sína og að talið væri að hætt væri á því að hann myndi fremja sjálfsvíg, samkvæmt frétt Guardian.

Sjá einnig: Maðurinn sem greindi frá andláti Elísabetar II játar barnaníð

Edwards talaði við Alex Williams, áðurnefndan barnaníðing, gegnum Whatsapp. Í febrúar 2010 sendi Williams myndband til Edwards sem sýndi barn sem var töluvert yngra en önnur í myndefninu sem gekk þeirra á milli.

Edwards svaraði ekki og viku síðar sendi Williams honum meira myndefni af börnum og spurði svo í kjölfarið hvort þetta væri „of ungt“ fyrir hann. Edwards svaraði og bað Williams ekki um að senda sér myndefni af börnum undir lögaldri.

Skömmu síðar spurði Williams hvort hann vildi „dónalegt“ myndefni af einhverjum ungum, sagði Edwards: „Já XXX“.

Lögmaður Edwards sagði eftir dómsuppkvaðninguna að það að hann hefði beðið Williams um að senda sér ekki myndefni af of ungum börnum hefði skipt miklu máli varðandi það að skjólstæðingur hans myndi ekki sitja inni.

Edwards er skilinn en hann á fimm uppkomin börn og kom lögmaður hans á framfæri afsökunarbeiðni til þeirra sem hann hefði skaðað. Hann áttaði sigi á því að hann hefði svikið traust margra og sært fjölskyldu sína og aðra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×