Tölfræðin er ekki knattspyrnustjóranum Erik ten Hag hliðholl þegar kemur að svekkjandi sigurmörkum mótherja undir lok leikja.
Sir Alex Ferguson gerði Manchester United þrettán sinnum að Englandsmeisturum á sínum tíma og oftar en ekki var það svokallaður Fergie tími sem skilaði mikilvægum stigum í hús.
Fergie tíminn var sá tími leiksins kallaður þegar United liðið þurfti nokkrar mínútur af viðbótartíma til að landa sigrum og oftar en ekki datt markið inn fyrir lokaflautið.
Einu sinni elskuðu allir stuðningsmenn United Fergie tímann en nú er Ten Hag tíminn að gera sömu menn brjálaða.
Sigurmark Brighton um helgina kom á fimmtu mínútu í uppbótatíma og tryggði liðinu 2-1 sigur á United. Joao Pedro var aleinn á fjærstönginni og skoraði með einföldum skalla.
Þetta er í sjötta sinn sem United liðið fær á sig sigurmark á 90. mínútu eða síðar frá því að Ten Hag tók við liðinu.
Á árunum 1992 til 2022, tuttugu tímabil áður en sá hollenski mætti á Old Trafford, þá fékk United aðeins samtals tvö slík sigurmörk á sig.
Tvö sigurmörk á 90. mínútu og síðar er vissulega stórkostleg tölfræði á tveimur áratugum en það er svakalegt að þrefalda þá tölu á aðeins rúmum tveimur tímabilum eins og raunin er hjá liðinu undir stjórn Ten Hag.