Slot tók við liðinu af Jürgen Klopp í sumar og leikmenn Liverpool segjast finna talsverðan mun á knattspyrnustjórunum. Liðið vann Real Betis fyrst og svo Arsenal í fyrrinótt.
Liverpool reynir meira að halda boltanum undir stjórn þessa hollenska og spilar því líkara Manchester City en það gerði undir stjórn Klopp.
Það á þó eftir að koma betur í ljóst á hvaða leikmenn Slot mun treysta á komandi tímabili og hvernig pressa liðsins verður.
Hollendingurinn er að minnsta kosti tilbúinn að reyna nýja hluti. Það sást meðal annars vel í nýrri hornataktík liðsins.
Í sigurleiknum á móti Arsenal þá reyndu leikmenn Liverpool þessa nýju taktík.
Allir í einum hnapp
Allir leikmenn liðsins, sem voru komnir fram í horninu, söfnuðust saman utarlega í teignum eða við vítateigslínuna.
Grikkinn Kostas Tsimikas tók hornspyrnuna og rétt áður en hann gerði það þá hreyfðu allir leikmenn Liverpool sig í átt að boltanum en þó á mismunandi staði í markteignum, í vítateignum og utan vítateigsins.
Dómarinn dæmdi brot á Liverpool fyrir hindrun á markvörð Arsenal en hornið skapaði engu að síður usla og ruglaði varnarmenn Arsenal greinilega í ríminu.
Það verður fróðlegt að sjá hvort við sjáum meira af svona furðulegum hornspyrnum á komandi tímabili. Hornið má sjá hér fyrir neðan.