Fótbolti

Romano stað­festir að Val­geir sé á leið til Düsseldorf

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson er á leið til Fortuna Düsseldorf.
Valgeir Lunddal Friðriksson er á leið til Fortuna Düsseldorf. Jose Breton/Pics Action/NurPhoto via Getty Images

Fabrizio Romano, einn helsti félagsskiptasérfræðingur heimsins, segir frá því á samfélagsmiðlum sínum að íslenski landsliðsmaðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson sé á leið til þýska félagsins Fortuna Düsseldorf.

Valgeir er búinn að skrifa undir samning við Düsseldorf, en sá samningur tekur gildi eftir tímabilið. Valgeir er samningsbundinn sænska liðinu Häcken út þetta ár, en Romano segir frá því að verið sé að vinna í því að Düsseldorf geti keypt leikmanninn strax í sumar.

Þó er ekki enn víst hvort það gangi eftir, en Düsseldorf er í það minnsta búið að tryggja sér þjónustu Valgeirs frá og með janúar á næsta ári.

Valgeir hefur leikið með Häcken frá árinu 2021, en þangað kom hann frá Val þar sem hann hafði leikið eitt tímabil og orðið Íslandsmeistari með liðinu.

Hjá Düsseldorf hittir Valgeir fyrir annan Íslending, en Ísak Bergmann Jóhannesson er leikmaður liðsins. Ísak var á láni hjá Fortuna Düsseldorf frá FCK á síðasta tímabili, en þýska liðið keypti íslenska miðjumanninn í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×